Samfylkingin tekur fylgi frá Framsókn og Pírötum

Skoðanakönnun Gallup sýnir mikla fylgissveiflu frá Framsókn og Pírötum til Samfylkingar á undanförnum vikum og mánuðum. Einnig að fylgið fellur af Vg og Framsókn í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur það hins vegar fínt. Sósíalistar ná á þing en Flokkur fólksins ekki.

Ef við setjum þingheim upp eins og hann yrði ef þetta yrðu niðurstöður könnunarinnar þá er staðan þessi (innan sviga er breyting frá núverandi þingi, eftir flokkaflakk):

Ríkisstjórn:
Sjálfstæðisflokkur: 17 þingmenn (+/-0)
Framsóknarflokkur: 8 þingmenn (-5)
Vg: 5 þingmenn (-3)
Ríkisstjórn alls: 30 þingmaður (-8)

Hin svokallaða frjálslynda miðja:
Samfylkingin: 14 þingmenn (+8)
Píratar: 8 þingmenn (+2)
Viðreisn: 5 þingmenn (+/-0)
Hin svokallaða frjálslynda miðja: 27 þingmenn (+10)

Ný-hægri andstaðan:
Flokkur fólksins: Enginn þingmaður (-6)
Miðflokkurinn: 3 þingmenn (+1)
Ný-hægri andstaðan: 3 þingmenn (-5)

Stjórnarandstaða utan þings:
Sósíalistaflokkurinn: 3 þingmenn (+3)

Ríkisstjórnarflokkarnir fengu 54,3% atkvæða fyrir ári og 37 þingmenn. Nánast á kosninganótt gekk síðan Birgir Þórarinsson úr Miðflokki yfir í Sjálfstæðisflokk svo ríkisstjórnin er með 38 þingmenn í dag. Í könnun Gallup fá ríkisstjórnarflokkarnir 43,8% og 30 þingmenn.

Þessi könnun staðfestir mikla fylgisaukningu Samfylkingar sem sést hefur í könnunum Prósent og Maskínu á síðustu vikum. Við skulum skoða það nánar.

Logi Einarsson lýsti yfir að hann vildi hætta sem formaður um miðjan júní. Fljótlega eftir það varð ljóst að Kristrún ætlaði fram, þótt hún hafi ekki lýst yfir framboði fyrr en seinni hluta ágúst. Ef við reynum að greina fylgisaukningu Samfylkingarinnar er júní-könnunin því líklega besta viðmiðunun.

Og þá er breytingin þessi, frá júní-nóvember:

Þessir bæta við sig:
Samfylkingin: +7,4 prósentur
Sjálfstæðisflokkur: +1,3 prósentur
Sósíalistar: +1,1 prósentur
Miðflokkur: +1,0 prósentur

Þessi standa í stað:
Viðreisn: +0,7 prósentur
Vg: +0,3 prósentur

Þessir missa fylgi:
Flokkur fólksins: -2,5 prósentur
Píratar: -3,9 prósentur
Framsókn: -5,3 prósentur

Þarna má merkja að fylgissveiflan til Samfylkingar, sem tengja má Kristrúnu Frostadóttur kemur fyrst og fremst frá Framsókn og Pírötum. Eins og formannsframboð hennar var lagt upp verður þetta baráttan um miðjuna. Kenningin er að þar sé mest að sækja. Annars vegar til þess fylgis sem leggur upp að Pírötum í könnunum en sem sagan sýnir að skilar sér illa á kjördag. Og hins vegar til þess fylgis sem Framsókn lokkaði til sín í kosningunum fyrir ári og svo aftur í sveitastjórnarkosningunum í vor.

Ef við miðum við kosningarnar fyrir ári er staðan sú að Framsókn og Vg hafa tapað sitthvorum 5 prósentunum og Flokkur fólksins rúmum 4. Samfylkingin hefur tekið 11 af þessum prósentum, Píratar 3,5 og Viðreisn og Sósíalistar sitthvort.

Á bak við þessa sveiflu er annars vegar viðsnúningur kjósenda Vg og Framsóknar gagnvart ríkisstjórninni og hins vegar óstuð á Flokki fólksins. Þegar þetta fylgi losnar leitar það annað og einkum til Samfylkingar og Kristrúnar síðustu mánuði.

Sveiflan frá Vg var þegar orðin áður en Logi gaf sína yfirlýsingu. Það er því fyrst og fremst Framsóknarfylgið sem losnar frá ríkisstjórninni eftir það.

Samfylkingin mælist nú með meira fylgi hjá Gallup en mælst hefur síðan í árslok 2012, nokkrum mánuðum fyrir sögulegt tap í kosningunum um vorið 2013.

Bláa punktalínan sem við settum inn á grafið eins og það birtist hjá Gallup sýnir fylgið í dag. Frá árslokum 2012 eru miklar sveiflur. Fyrst eftir tapið 2013 leit út eins og flokkurinn ætlaði að jafna sig, fylgið fór í 20,3% í árslok 2014. En þá gerðist það að óánægja með ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna birtist í gríðarlegri fylgisaukningu Pírata, sem þá voru aðeins með þriggja manna þingflokk. Og Samfylkingin féll niður í 5,7% í kosningunum 2016, verandi í stjórnarandstöðu gegn óvinsælli ríkisstjórn sem féll á spillingarmáli.

Eftir það afhroð tók Logi við sem formaður. Hann náði góðum bata í kosningunum 2017 þar sem flokkurinn fékk 12,1%. Það var langt frá því sem lagt var upp með við stofnun flokksins 1999, en samt miklu skárra en skellurinn 2016.

Haustið 2018 mældist Samfylkingin með 19,3% og var enn með 17,1% í ársbyrjun 2021, kosningaárið. Þá fór eitthvað úrskeiðis og flokkurinn misst flugið og fékk aðeins 9,9% í kosningunum um haustið.

Eins og sjá má á grafinu hefur leiðin legið upp á við síðan þá. Á tíma Loga reis fylgið um tæpar 4 prósentur og svo um rúmar 7 prósentur eftir að hann lýsti yfir að hann myndi hætta.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí