Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson verða ákærðir fyrstir Íslendinga fyrir undirbúning hryðjuverka. Og eiga þá yfir höfði sér langa fangelsisvist ef þeir verða dæmdir samkvæmt þessu, þar sem refsiramminn í hryðjuverkaákvæðum hegningarlaga er þungur. Verjendur þeirra munu reyna allt til að túlka orð þeirra og gjörðir með öðrum hætti fyrir dómi.
Ákvæðið um hryðjuverk í hegningarlögum segir að refsa skuli með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar.
Síðan eru talin upp manndráp, líkamsárásir, frelsissvipting, röskun á umferðaröryggi, flugrán, brenna og annað slíkt.
Þeir Sindri Snær og Ísidór hafa ekki framið þessi brot en næsta málsgrein segir að sömu refsingu skal sá sæta sem í sama tilgangi hótar að fremja þau brot sem talin eru hér að ofan.
Til samanburðar við ævilangt fangelsi sem refsiramma má nefna þetta ákvæði í hegningarlögum: Hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
Þarna er himinn og haf á milli. Tvö ár að hámarki eða ævilangt fangelsi, sem í tilfelli Sindra Snæs og Ísidórs yrði líklega yfir sextíu ár sé miðað við ungan aldur þeirra, en Sindri er 25 ára en Ísidór 24 ára.
Til að sýna hversu þung refsing er sett við því sem skilgreint er sem hryðjuverk þá segir í hegningarlögum að hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
Sá sem síendurtekið ógnar nákomnum með ofbeldi fær að hámarki sex ár. Sá sem hótar að fremja hryðjuverk gæti fengið ævilangt fangelsi.
Og í kaflanum um hryðjuverk í hegningarlögum segir að hver sá sem aðstoðar við undirbúning hryðjuverka geti fengið allt að tíu ára dóm. Lögreglan framkvæmdi húsleitir víða og lagði hald á töluvert magn af vopnum. Ekki hefur komið fram hvort nokkur þeirra sem þau áttu sé grunaður um að hafa aðstoðað þá Sindra Snæ og Ísidór.