Velta fyrirtækjan vex langt umfram verðbólgu

Mikill vöxtur hefur verið í veltu fyrirtækja það sem af er ári og vegur þar þyngst endurreisn ferðaþjónustunnar, en ekki síður fádæma góðæri í álbræðslu og útgerð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni. Á fyrstu tíu mánuðum ársins var velta í viðskiptahagkerfinu, að undanskilinni lyfjaframleiðslu, fjármála- og vátryggingarstarfsemi, 26,2% hærri en í sömu mánuðum í fyrra. Þetta er langt umfram verðbreytingar, magnaukningin er um 16% umfram verðlag.

Þetta skýtur skökku við nýgerða kjarasamninga þar sem launafólk fær ekki einu sinni verðbætt laun sín. Ef þeir samningar verða samþykktir mun það leiða til að allur ávinningur af veltuaukningunni rennur til eigenda fyrirtækja.

Það sem vegur þyngst í aukinni veltu er endurreisn ferðaþjónustunnar. Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar jókst um 97,1% á fyrstu tíu mánuðum ársins í samanburði við 2021.

En vöxtur er líka ævintýralegur í útflutningsgreinunum. Velta í álbræðslu jókst um 43,4%, í sjávarútvegi um 17,2% og í fiskeldi um 24,9%. Þessa aukningu má rekja til hækkunar á álverði og matvælaverði, sem skilar sér í bættum hag fyrirtækjanna langt umfram aukna veltu.

Velta í olíuverslun jókst um 86,3% vegna hækkunar á olíuverði en velta í annari heildsölu jókst um 27,1% og endurspeglar það vöxtinn í hagkerfinu.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí