Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur skrifaði undir kjarasamning Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins í dag. Hörður skrifaði ekki undir um síðustu helgi vegna þess að í samninginn vantaði varnir gegn verðbólgu, en telur nú að yfirlýsing samhliða samningi verslunar- og iðnaðarmanni skili þeirri vörn.
Sameiginleg yfirlýsing Samtaka atvinnulífsins og verslunar- og iðnaðarmanna er um fjögurra manna nefnd sem hittist mánaðarlega og á þriggja mánaða fresti með Seðlabanka og stjórnvöldum til að fylgjast með og hafa áhrif á verðhækkanir. Ef allt fer úr böndunum þá mun forsendunefnd fara yfir málin og boða til fundar með samningsaðilum ef það er sameiginlegt mat nefndarinnar, það er bæði verkalýðshreyfingar og fyrirtækjaeigenda, að forsendur samningsins séu brostnar. Samningsaðilar munu þá ákveða viðbrögð. Sem geta verið launabætur, uppsögn samnings eða eitthvað annað. Eða ekki neitt, ef samkomulag næst ekki.
Með undirritun Verkalýðsfélags Grindavíkur hafa öll aðildarfélög Starfsgreinasambandsins og Landssambands verzlunarmanna og öll iðnaðar- og tæknigreinafélögin gengið frá samningum. Nema Efling. Sjómenn eru líka samningslausir og enn er ósamið við flugfreyjur og leiðsögumenn. Þar með er ASÍ upptalið, hinn almenni vinnumarkaður.
Friðrik Jónsson formaður BHM kallaði eftir því í dag að fá að ganga strax til samninga á sömu nótum og þegar hefur verið samið um. Hann virðist meta það svo að hagur BHM sé meiri af því að flýta skammtímasamningi og sækja þær launahækkanir sem eru í boði en að leggja í langar viðræður um lengri samning. Forysta BSRB og Kennarasambandsins hafa ekki tjáð sig um stöðuna í kjaraviðræðum.
Því fleiri sem stökkva á vagninn því flóknara verður það fyrir Eflingu að ná einhverju meira út úr sínum viðræðum. Bæði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Stefán Ólafsson sérfræðingur hjá félaginu hafa haldið því fram, reyndar eins og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, að miklu meira svigrúm væri til launahækkana en eru í þeim samningum sem kláraðir hafa verið. Óvissan í efnahagsmálum væri blásin upp og lítið gert úr einstöku góðæri í fyrirtækjarekstri.