„Hér var ekki vandað til verka. Samtakamáttur hreyfingarinnar og máttur félagsfólks var ekki nýttur. Allt gert með miklum hraða sem að enginn græðir á nema atvinnurekendur,“ eru viðbrögð Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, við nýjum samningum Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins.
„Kjaraviðræður eiga að vera unnar með þátttöku og nærveru félagsfólks, sem er okkar helsti styrkur og kjölfesta. Fólkið sjálft sem ætlar að vinna undir samningunum.,“ segir Sólveig Anna. „Þegar það er með þá er raunverulegt umboð til staðar, jarðtenging og gagnsæi. Það var ekki hér, heldur gamaldags lokuð og ógagnsæ vinnubrögð sem verkafólk tapar á.“
En það sem samið var um, er það nóg?
„Við getum og eigum að gera betur, og það mun ég beita mér fyrir að verði gert. Eins hratt og hægt er, en við munum ekki láta þvinga okkur með einhverri tilbúinni tímapressu. Þessi samningur er þrátt fyrir allt 14 mánaða samningur, sem er talað um sem skammtímasamning en er langur tími í lífi verkafólks,“ segir Sólveig Anna.
„Það er svo ótrúlegt að ætla sér að selja hagvaxtaruppbótina vegna síðasta árs sem hluta af þessum samningi,“ bætir hún við. „Þetta er atriði sem við sömdum um árið 2019, að ætti vera hannað svona. Hagvaxtaraukinn árið 2023 er bara það sem við eigum inni vegna hagvaxtarins árið 2022. Og þeir fengu verulegan afslátt af hagvaxtaraukanum fyrir árið 2022 í framkvæmd vegna þess að í forsendum hagvaxtaraukans var aldrei gert ráð fyrir meira en 3% hagvexti sem þýðir 13 þúsund í hagvaxtarauka, 9.750 kr. fyrir millitekjuhópa. En hagvöxtur 2022 er að fara að verða tvöfalt hærri en þetta, en samt er þakið 13 þúsund! Við hefðum átt að fá miklu meira! En svo er þessi upphæð tekin núna og kynnt sem hluti af árangri þessarar kjarasamningsgerðar. Alveg ótrúlegt að sjá þetta gerast og að menn hafi geð í sér að selja fólki þetta,“ sagði Sólveig Anna í samtali við Samstöðina.