Þegar ársreikningar Íslandshótela eru skoðaðir kemur í ljós að hagur eigenda af rekstri þeirra síðustu tíu árin hefur verið að meðaltali 1.920 m.kr. á ári síðustu tuttugu ár. Lang mest af þessu hefur aukið auð eins manns, en Ólafur D. Torfason á persónulega rétt tæp 74% af Íslandshótelum. Hann hefur fengið í sinn hlut tæpa 17 milljarða króna síðustu tíu ár í formi hækkunar eigna og arðs.
Hlutaféð sem Ólafur lagði til félagsins upphaflega var sáralítið í samhengi við núverandi rekstur. Þetta er félag sem var í ýmsum viðskiptum áður en Ólafur tók yfir uppbyggingu húsanna á Ölferðarreitnum við Rauðarárstíg þar sem hann opnaði meðal annars Hótel Reykjavík. 1995 keypti Ólafur síðan með öðrum hótel við Sigtún þegar Holiday Inn gafst upp á rekstrinum og opnaði þar Grand hótel. Ólafur eignaðist síðan Grand hótel svo til að öllu leyti og hefur byggt upp keðju Íslandshótela á þeim grunni.
Gríðarleg hækkun eigin fjár
Í upphafi aldarinnar var eigið fé Grand hótels 236 m.kr. á núvirði. Eigið fé Íslandshótela var fyrir ári 21.613 m.kr. Árið 2015 komu lífeyris- og fjárfestingarsjóðir inn í fyrirtækið og fengu tæpan fjórðungs hlut fyrir tæpa 3,8 milljarða króna. Hlutur Ólafs Torfasonar varð við það tæp 74% og því á hann persónulega um 15.944 m.kr. hlut af eigin fé Íslandshótela. Eign hans hefur því vaxið um 15.708 m.kr. á þessu tuttugu ára tímabili eða um 785 m.kr. á ári. Sem gera tæpar 2,2 m.kr. á hvern dag ársins yfir tuttugu ára tímabili, virka og helgidaga.
En Ólafur hefur líka tekið fé út úr fyrirtækinu, bæði með því að taka út arð og með því að láta fyrirtækið kaupa af sér hlutabréf. Miðað við eignarhlut Ólafs á hverjum tíma hefur hann fengið með þessum hætti 1.759 m.kr. á núvirði á síðustu tuttugu árum, tæpar 88 m.kr. á ári. Sem jafngildir um 7,3 m.kr. á mánuði.
Heildarhagur Ólafs af rekstri Grand hótels og síðar Íslandshótela, það er hlutdeild hans í hækkun eiginfjár félagsins plús útgreiddur arður og seld hlutabréf, hefur því verið tæplega 17,5 milljarðar króna á tuttugu árum. Sem gera 2,4 m.kr. á dag, alla daga ársins.
Og megnið af þessum hag hefur borist til Ólafs eftir Hrun, einkum á síðustu tíu árum. Á þessum tíma hafa arðgreiðslur og seld hlutabréf verið um 1.618 m.kr. og hans hlutur í hækkun eigin fjár hefur verið um 15.353 m.kr. Samanlagt er þetta hagur upp á 16.971 m.kr. á tíu ára tímabili. Sem gera rúmar 4,6 m.kr. hvern einasta dag.
Meðallaun langt undir landsmeðaltali
Í ársreikningi Íslandshótela fyrir árið 2021 kemur fram að 360 manns unnu hjá hótelunum 2021 sé miðað við fullt stöðugildi. Það kemur líka fram að launagreiðslur hafi verið 2.515,8 m.kr. í heildina. Það gera 582 þús. kr. meðallaun. Sem er mjög lágt. Þarna er allt starfsfólkið talið, ekki bara fátækar láglaunakonur sem þrífa herbergin heldur líka forstjórinn, fjármálastjórinn, hótelstjórarnir og aðrir stjórnendur.
Meðallaun í landinu voru 823 þús. kr. árið 2021. Meðallaunin á Íslandshótelum voru því 29% undir meðaltali landsins. Að meðaltali fékk starfsfólk Íslandshótela 241 þús. kr. lægri laun en fólk almennt.
Í fyrra fékk sú sem var með 582 þús. kr. á mánuði 416 þús. kr. útborgaðar. Þá var áætluð framfærslukostnaður Umboðsmanns skuldara fyrir einstakling, án húsnæðiskostnaðar og trygginga, tæplega 187 þús. kr. Þá átti meðalstarfsmaður Íslandshótela eftir 229 þús. kr. upp í húsaleigu, rafmagn, hita, hússjóð og tryggingar. Þetta hefði mögulega dugað fyrir lítilli íbúð og tilheyrandi árið 2021, en þá átti fólk ekkert eftir.
Launin duga rétt aðeins fyrir sköttum, gjöldum og framfærslu, engin leið er að spara né veita sér neitt umfram það sem Umboðsmaður skuldara telur nauðsynlegt að fólk á barmi gjaldþrots veiti sér áður en það byrjar að greiða af skuldum sínum.
Efling hefur boðað til verkfalls á hótelum Íslandshótela á höfuðborgarsvæðinu til að knýja á um launahækkanir. Eflingarfélagar sem vinna þar munu greiða atkvæði um hvort þeir vilji í verkfall eða ekki. Niðurstaðan kemur fram snemma í næsta viku.
Lítill ávinningur launafólks, mikill ávinningur eigenda
Og hér er miðað við meðaltal launa Íslandshótela. Forstjórinn, fjármálastjórinn, hótelstjórarnir og aðrir stjórnendur eru ekki á sama jafnaðarkaupinu og konurnar sem þrífa herbergin eða fólkið á næturvöktum gestamóttöku. Ef meðallaunin duga vart til framfærslu er ljóst að meginþorri starfsfólks fær laun sem duga engan vegin fyrir framfærslu. Ekki framfærslu eins einstaklings, hvað þá að starfsfólkið getið brauðfætt börnin sín.
Þetta er náttúrlega sláandi staða. Að fyrirtæki sem skilar aðaleiganda sínum auknum auð upp á 4,6 m.kr. hvern einasta dag, 141 m.kr. hvern mánuði, skuli ekki borga starfsfólkinu laun sem duga til að lyfta fókki upp úr sárri fátækt.
Notið velferðarkerfis fyrirtækja
Íslandshótel hafa notið þess velferðarkerfis fyrirtækja sem stjórnvöld hafa byggt upp hérlendis. Heildarskattgreiðslur félagsins af 21 milljarðs króna hagnaði fyrir skatta á síðustu tíu árum var 17%. Meðalstarfsmaðurinn sem við tókum dæmi af hér að ofan greiddi 24% af tekjum sínum í skatt árið 2021.
Skattur af arðgreiðslum á Íslandi er 22%, sem er langt undir skatthlutfalli af meðallaunum. Og mun lægra en tíðkast í okkar nágrannalöndum. Ef við setjum núgildandi fjármagnstekjuskatt á allar arðgreiðslur Íslandshótela síðustu tíu árin þá væri hann 295 m.kr. Sé tekið meðaltal Norðurlandanna væri þessi skattur 461 m.kr. Það er 56% hærri skattur en raunin er hérlendis.
Eftir Hrun fengu Íslandshótel niðurfelldar skuldir upp á 90 m.kr. á núvirði samkvæmt reikningum félagsins.
Í kórónafaraldrinum fengu Íslandshótel styrk úr ríkissjóði upp á 1.057 m.kr. á núvirði. Þessi styrkur var fullkominn óþarfi miðað við reikninga Íslandshótela, félagið hafði alla burði til að standa áfallið af sér. Framlagið til Íslandshótela, og þá að mestu til Ólafs D. Torfasonar, var á pari við ferðagjöfina sem allir landsmenn fengu í kórónafaraldrinum.
Stefnt að því að innleysa hagnað í Kauphöllinni
Með innkomu lífeyrissjóðanna í Íslandshótel 2015 var gert samkomulag um að setja Íslandshótel á hlutabréfamarkað svo lífeyrissjóðirnir gætu innleyst hag sinn af kaupum á tæplega 25% hlut í félaginu. Lífeyrissjóðirnir lögðu til tæplega 3,8 milljarða króna til að fjármagna byggingu nýrra hótela. Undirbúningur að skráningu Íslandshótela var hafin fyrir cóvid. Nú þegar ljóst er að ferðaþjónustan hefur jafnað sig eftir faraldurinn má reikna með að það gerist í ár eða á því næsta.
Þá mun koma í ljós hvert markaðsvirði fyrirtækisins verður, en reikna má með að það verði mun hærra en eigið fé fyrirtækisins sem hér hefur verið miðað við. Hagur aðaleigandans, Ólafs D. Torfasonar, af rekstri hótelanna er því mun meiri en hér hefur verið stillt upp, aldrei minni.
Myndin er af Facebook og er af Ólafi D. Torfasyni með fjölskyldu og samstarfsfólki á byggingarstað Reykjavík Saga hótels við Lækjargötu. Hringur er dreginn um Ólaf.