Bankamenn vilja meira frá SA

„Það sem okkur stendur til boða samkvæmt formlegu tilboði dagsett þann 9. janúar 2023 er 6,75% launahækkun þó að hámarki kr. 66.000. Þetta þýðir að öll laun fyrir ofan 978 þús. kr. myndu hækka um minna en 6,75%,“ skrifar Ari Skúlason formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja í bréfi til sinna félagsmanna.

Ari gerir ekki sérstakar athugasemdir við að 6,75% launahækkun í nærri 10% verðbólgu séu samningar um kjararýrnun, heldur telur bankamenn svikna út frá svokölluðu kostnaðarmati samninga. Það er mat á hlutfallslegri hækkun launakostnaðar fyrirtækja. Samningur Starfsgreinasambandsins er metinn á 8% hækkun að jafnaði, sem er æði vel sloppið hjá fyrirtækjum sem hafa aukið veltu og verð vel umfram þetta. En þar sem starfsmenn bankanna eru hærra launaðir en verkafólk myndi það hækka launakostnað bankanna mun minna ef bankamenn féllust á kröfur SA.

„Við erum því í þeirri stöðu að meðallaunahækkun til félagsmanna SSF samkvæmt tilboði SA væri 5,6 – 5,8%, eða sagt með öðrum orðum að SA leggi til að kostnaður fjármálafyrirtækjanna við framlengingu kjarasamnings verði mun lægri en gildir um önnur fyrirtæki á almenna markaðnum.,“ skrifar Ari.

Kröfur bankafólksins er því að fá fram kjarabætur svo launakostnaður bankanna hækki um 8% eins og hjá SGS. Það sættir sig því við minni hækkanir en nemur verðbólgu, minni hækkanir en nemur aukinni landsframleiðslu að teknu tilliti til verðbólgu og mun minni hækkanir en sem nemur miklu meiri hagnaði bankanna.

Hér má lesa bréf Ara: Járn í járn í samningaviðræðum

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí