Efling boðar verkföll hjá fyrirtækjum auðkýfinga

Samninganefnd Eflingar hefur boðað verkföll bílstjóra hjá Samskipum, Skeljungi og Olíudreifingu og á hótelum Berjaya Hotels, sem áður voru hótel Icelandair. Þetta eru fyrirtæki í eigu auðugasta fólks landsins. Og reyndar víðar.

Atkvæðagreiðsla hefst á föstudaginn og lýkur á þriðjudaginn í næstu viku. Ef verkfallið verður samþykkt hefst það 15. febrúar, viku á eftir verkfallinu á Íslandshótelum.

Bílstjórar hjá Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi munu greiða atkvæði og hótelþernur á Berjaya Hotels. Þau sem fara í verkfall fá greiddar 25 þús. kr. á dag úr verkfallssjóði Eflingar til að bæta sér upp launamissinn.

Aðaleigandi Samskipa er Ólafur Ólafsson auðkýfingur búsettur í Sviss. Ólafur var einn af helstu leikendum í bankabólunni sem sprakk 2008. Hann var áður starfsmaður Sambands íslenskra samvinnufélaga en eignaðist miklar eignir þess þegar það lenti í rekstrarerfiðleikum seint á síðustu öld. Hann keypti síðan Búnaðarbankann ásamt félögum sínum og varð einn stærsti eigandi Kaupþings banka sem féll haustið 2008. Ólafur var dæmdur í fangelsi fyrir ýmiskonar brot en hélt auð sínum og er stórtækur í byggingu íbúðarhúsnæðis á lóðum sem áður tilheyrðu Sambandinu, auk þess að eiga og reka Samskip.

Aðaleigandi Skeljungs er fjárfestingafélagið Skel, þar sem Ingibjörg Pálmadóttir er stærsti eigandinn, eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Þau voru eins og Ólafur meðal helstu leikenda bólunnar sem sprakk 2008. Skel á og rekur Skeljung og Orkuna bensínstöðvar, verslanir 10-11 og Extra, Löður bílaþvottastöð, Lyfjaval og veitingastaði Gló o.fl.

Olíudreifing er félag í eigu Festis, sem á og rekur N1, og Olís. Festi á og rekur auk N1, Krónuna, Elkó, vöruhótel og fasteignafélag. Olís er í eigu Haga, sem reka Bónus, Hagkaup, Zöru tískubúð, Eldum rétt, heildsölur og margt fleira. Lífeyrissjóðirnir eru stórir hluthafa bæði í Festi og Högum. Stærsti hluthafinn í Högum fyrir utan lífeyrissjóði er Kaldbakur, fjárfestingarfélag Samherja, og hefur hann verið leiðandi um stefnu félagsins. Stærstu hluthafarnir í Festi fyrir utan lífeyrissjóði eru félög í eigu Hreggviðs Jónssonar í Veritas, Björgólfur Jóhannsson viðskiptafélaga Samherja og Bjarna Ármannssonar fyrrum bankastjóra Glitnis.

Aðaleigandi Berjaya Hotels er malaíski viðskiptamógúllinn Vincent Tan, sem auðgaðist af nánum tengslum sínum við stjórnmálaelítuna í Malasíu. Eins og á við um margt af íslenska auðfólkinu sem hér hefur verið nefnt.

Bílstjórar og hótelþernur Eflingar eru því á leið í átök við marga af helstu páfum græðgiskapítalismans.

Myndin er af Ólafi Ólafssyni, Þorsteini Má Baldvinssyni og Vincent Tan.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí