Efling efast um lögmæti miðlunartillögu Aðalsteins

Efling hafnar lögmæti miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í morgun. Í tilkynningu frá félaginu segir að tillagan hafi verið lögð fram með óeðlilegum flýti og án samráðs við Eflingu. Það með hafi ríkissáttasemjari brotið ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur um samráð við deiluaðila, sem ber að viðhafa áður en miðlunartillaga er lögð fram.

Efling beitir auk þess á að miðlunartillagan sé gegn öllum venjum í samskiptum aðila vinnumarkaðarins, þar sem tíðkast hefur að miðlunartillögur fari bil beggja.

„Hin svokallaða miðlunartillaga felur í sér að afstöðu annars aðilans er þröngvað upp á hinn,“ segir í tilkynningu Eflingar. „Tillagan er algjörlega samhljóða síðasta tilboði Samtaka atvinnulífsins. Ekkert tillit var tekið til sjónarmiða Eflingar í tillögunni. Efling fordæmir þessi vinnubrögð.“

Efling bendir á að á blaðamannafundinum hafi ríkissáttasemjari ekki getið þess að til að miðlunartillögu sé hafnað samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nægir ekki að henni sé hafnað af meirihluta greiddra atkvæða. Mótatkvæði þurfa auk þess að vera fjórðungur af öllum á kjörskrá.

„Þetta fyrirkomulag atkvæðagreiðslu er ólýðræðisleg og íþyngjandi, sem setur enn frekari spurningarmerki við það samráðsleysi sem embætti ríkissáttasemjara sýnir gagnvart Eflingu,“ segir í tilkynningunni.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí