Eftir stuttan samningafund hjá ríkissáttasemjara í hádeginu sleit samninganefnd Eflingar viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Næsta skref er að leita heimilda félagsfólks til að boða til verkfalla til að knýja á um kröfur verkafólksins. Búast má við að þær kröfur verði hærri en voru á borðinu í hádeginu, þar sem Samtök atvinnulífsins hafa sagt að ekki verði samið um afturvirkan samning frá 1. nóvember ef ekki verður samið fljótt.
Efling setti það sem skilyrði að nýtt tilboð félagsins yrði grunnur viðræðnanna, en Samtök atvinnulífsins höfnuðu því. Efling krafðist þess sama og er í samningum SA við Starfsgreinasambandið en 5.000 kr. meira fyrir þau sem eru að hefja störf hjá fyrirtæki en síðan auknar starfsaldurshækkanir sem þó koma öðruvísi út en hjá SGS, þannig að mesta hækkunin kemur ekki eftir fimm ára starfsaldur heldur eftir átján mánuði og þrjú ár. Auk þess er krafist 15 þús. kr. framfærsluuppbótar upp á 15 þús. kr. sem ekki leggst við launatöfluna né hækkar yfirvinnu eða vaktagreiðslur. Rökin fyrir þessari kröfu er há framfærsla á svæði Eflingar, einkum vegna stjórnlauss húsnæðismarkaðar sem grefur undan lífskjörum láglaunafólks. Efling vitnar í opinber gögn sem segja að húsnæðiskostnað 45% dýrari á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu.
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað öllum hækkunum umfram þann samning sem samtökin náðu gagnvart Starfsgreinasambandinu.
Fundurinn í morgun var stuttur. Það á við um alla samningafundi Eflingar og SA, bæði fyrir og eftir að viðræðunum var vísað til sáttasemjara. Fundum hefur verið frestað og langur tímu liðið á milli funda, öfugt við það sem átti við um SGS og síðar verslunar- og iðnaðarmenn.
Myndin er af Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar á leið á fundinn í hádeginu.