Feminískar: Brjóstapúðar, fótbolti, þrettándinn og Talíbanar

Í femínistafréttum Samstöðvarinnar var fjallað um skaðsemi brjóstapúða, kvenhatur Talíbana, réttindi fótboltakvenna, umræður um klámbann, andfeminíska þrettándagleði, fjölgun kynferðisbrota á Austurlandi og Dorothy Pitman Huges

Konur fengu ekki fræðslu um skaðsemi brjóstapúða

Konur sem fá brjóstaígræðslur með sílíkonbrjóstapúðum geta veikst af brjóstapúðaveiki, BII eða Breast Implant Illness. Silíkonið í púðunum rýrnar oft með tímanum og síast agnir úr þeim út um ysta lag púðans. Silíkonið getur sest í örvef og eitla og jafnvel í aðra vefi líkamans eins og lungu og heila. Bryndís Guðmundsdóttir segir frá því í viðtali við Rúv í vikunni að hún greindist með krabbameinsæxli í eitlum eftir að sprungnir púðar voru fjarlægðir úr henni þrátt fyrir að krabbameinsskimun hafi ekki leitt neitt í ljós. Hún gagnrýnir lélega fræðslu til kvenna sem láta setja í sig brjóstaígræðslur en í hennar tilfelli var það gert eftir hvatningu frá lýtalækni. Kristján Erlendsson ónæmisfræðingur var einnig í viðtali við Kveik vegna brjóstapúðamála og tekur hann undir þá gagnrýni að konur séu ekki nægilega vel upplýstar.

Lýtalæknar hér á landi deila enn við Landlækni um upplýsingagjöf vegna brjóstapúðaígræðslna og lýtaaðgerða vegna persónuverndarmála. Landlæknir hefur árum saman krafið lýtalækna um upplýsingar um starfsemi sína án árangurs. Ekki er vitað hversu margar fegrunar- og lýtaaðgerðir eru framkvæmdar á einkastofum lýtalækna þrátt fyrir upplýsingaskyldu samkvæmt lögum.

Hugmyndafræði Talíbana stjórnast af kvenhatri

Hjálparstarf í Afganistan hefur átt undir högg að sækja eftir að Talíbanar tóku við stjórnartaumum í landinu á ný. Konum var strax meinað að vera á vinnumarkaði auk annarra almenningsrýma svo sem líkamsræktarstöðvum og í skemmtigörðum og sama átti við um þær konur sem héldu hjálparstarfi gangandi. Þetta hefur haft þær afleiðingar að hjálparstarf hefur að mestu legið niðri enda var því haldið gangandi af konum.

Talíbanastjórnin hefur nú liðkað um reglurnar svo konur geti aftur sinnt hjálparstarfi upp að einhverju marki.

Þá skapaðist nýlega heit umræða um kvenkyns verslunargínur í Kabúl en Talíbanastjórnin ákvað að gínur skyldu vera höfuðlausar. Olli það töluverðri reyði meðal kvenna og var á endanum dregið í land og ákveðið fremur að hylja höfuð gínanna algjörlega.

Lyon braut á réttindum Söru Bjarkar

Sara Björk Gunnarsdóttir fyrrum fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta birtir reynslusögu sína um veruna hjá franska úrvalsdeildarliðinu Lyon í Players Tribune á dögunum. Þar segir hún frá því hvernig stjórnendur liðsins beittu hana útilokun eftir að hún varð ófrísk og eignaðist barn. Forsvarsmenn liðsins neituðu að greiða henni fæðingarorlof og hótuðu henni algjörri útilokun ef hún hygðist leita réttar síns. Umfjöllun Söru um málið sviptir hulunni af enn meiri kvenfyrirlitningu innan knattspyrnuheimsins en þó þekkist í gegnum launamun kynjanna í greininni.

Klámbannið á þingi

Píratar lögðu fram frumvarp í haust um að afnema bann á klámi en Félagasamtökin BDSM á Íslandi sendu inn umsögn við frumvarpið á dögunum. Í frumvarpinu sem lagt er fram af þeim Birni Leví Gunnarssyni og Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur er lagt til að bann við klámi verði afnumið, enda hafi viðhorf til kynlífs gjörbreyst á þeim 153 árum sem liðin eru frá því að klám var fyrst bannað á Íslandi. Í texta frumvarpsins má sjá að lítill sem enginn greinarmunur er gerður á hugtakinu kynlífi og klámi. Sama má sjá í umsögn BDSM samtakanna sem kvarta undan því að kynferðisathafnir þeirra sé oft taldar vera ofbeldisklám. Samtökin vilja meina að flokkun af þessu tagi sé gagnslaus; ýti undir neikvæðar staðalímyndir um BDSM; sé afar jaðarsetjandi fyrir BDSM-fólk. Þá telja þau að lög sem banni fólki að birta og deyfa myndefni af kynlífi svo sem eigin kynlífi, vera tímaskekkju sem ýti undir jaðarsetningu kynlífsverkafólks og takmarki möguleika þeirra til að afla sér lífsviðurværis á öruggan og löglegan hátt.

Andfeminísk og rasísk þrettándagleði í Vestmannaeyjum

ÍBV og Haraldur Pálsson, framkvæmdarstjóri þess voru gagnrýnd fyrir rasískt og andfeminískt athæfi þegar tröllskessa í þrettándagleði þeirra var kennd við múslima og önnur merkt Eddu Falak Haraldur sagði félagið biðjast velvirðingar á þessu og að honum þætti leiðinlegt ef skessurnar særðu blygðunarkennd einhverra. Raunveruleg afsökunarbeiðni Haraldar var eitthvað á reiki en bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum sagði atburðinn óviðeigandi. Edda skrifar á Twitter reikning sinn í kjölfarið „Hér er heilt íþróttafélag og bæjarfélag að hvetja til ofbeldis og stóri boginn er að segja konum að halda kjafti þegar þeim er nauðgað. Ég hef greinilega nóg að gera á þessu ári.”

Fjölgun kynferðisbrota á Austurlandi

Lögreglan á Austurlandi segir í nýútkominni skýrslu að kynferðisbrotum þar hafi fjölgað um 133,33 prósent árið 2022 frá árunum 2020-21. Þá hafi lögreglunni borist sex tilkynningar um kynferðisbrot en á ári árin á undan en á síðasta ári hafi þeim fjölgað í fjórtán. Málin hafa ekki verið fleiri síðan árið 2014 þegar átján mál komu inn á borð lögreglunnar á Austurlandi.

Minning um Dorothy Pitman Huges femínista

Ameríski femínistinn Dorothy Pitman Huges var fædd 2. október 1938 lést þann 1. desember 2022

Hún fluttist ung til New York og eignaðist börn snemma þó hún hafi ekki verið gift lengi. Hún sá fljótlega að það var ekki einfalt að vera einstæð móðir svo hún stofnaði sína eigin fjölmenningarlegu blandaða og samvinnurekna dagvistun fyrir börn. Aðgerðarsinninn og blaðamaðurinn Gloria Steinem tók viðtal við hana um starfsemina og með þeim tókst mikill vinskapur. Þær börðust lengi saman fyrir kvenréttindum og gegn rasisma og ferðuðust m.a. með fyrirlestraröð í tvö ár um öll bandaríkin. Þá komu þær að stofnun blaðsins Ms. Magazin. Hún átti einnig þátt í stofnun margra kvennaathvarfa víða um bandaríkin, kenndi og gaf út bækur. Hún var brautryðjandi svartra kvenna fyrir margar sakir og hafði mikil áhrif á kvenfrelsisbaráttu og baráttuna gegn undirokun svartra kvenna.

Sjá má og heyra samtal þeirra Söru Stef., Margrétar Pétursdóttur og Maríu Pétursdóttur um feminískar fréttir vikunnar í spilarnum hér að ofan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí