Samanlögð staðgreiðslulaun í nóvember síðastliðnum voru 2,6% lægri á launamann á föstu verðlagi en í sama mánuði í fyrra. Nýjustu tölur um veltu fyrirtækja, frá september-október, sýnir hins vegar 7,8% vöxt umfram verðlag. Þetta vísar til aukins hagnaðar fyrirtækja á sama tíma og launakostnaður dregst saman á föstu verðlagi.
Samstöðin birti í morgun grein Vilhjálms Hilmarssonar hagfræðings BHM sem sýndi fram á gríðarlegan vöxt í hagnaði fyrirtækja á tímabili aukinnar verðbólgu. Ætla má að þessu aukni hagnaður byggi á hækkun vöru og þjónustu og aukinni veltu, það er að verðbólgan sé drifin áfram af hækkun fyrirtækja sem geta samt aukið veltu sína umfram verðlag.
Þegar velta eykst umfram verðlag er ljóst að fyrirtækin hafa aukið svigrúm til enn frekari hækkana, hækkanir þeirra hingað til hafa ekki enn slökkt á eftirspurninni. Þar ræður náttúrlega miklu aukinn ferðamannastraumur, innflutningur á nýjum viðskiptavinum, en líka fádæma góðæri útflutningsgreina á erlendum mörkum, ekki síst í sjávarútvegi og álbræðslu. Það má því reikna með miklum verðhækkunum á næstunni, meðan fyrirtækjaeigendur eru að kanna hvar efstu mörk okursins liggja.
Á sama tíma grefur verðbólgan, sem fyrirtækin keyra áfram, undan kaupmætti launafólks. Í haust mátti sjá viss merki um launaskrið og það hefur líka mátt heyra í ummælum veitingamanna, sem kvarta undan mikilli samkeppni um starfsfólk. Og boða miklar hækkanir á veitingum vegna þess. En í nýjum tölum Hagstofunnar um staðgreiðslu launa í nóvember má sjá þónokkurn samdrátt frá fyrra ári, eða 2,6% á mann að teknu tilliti til verðlags.
Þetta er á skjön við tölur Hagstofunnar um aukna veltu fyrirtækja, sem hefur verið ævintýraleg að undanförnu og sýna góðæri í fyrirtækjarekstri líkast því sem var 2007.
Það er því augljóst að launafólk er fá hlutfallslega minna en áður á sama tíma og fyrirtækin velta meiru og fyrirtækja fá meiri hagnað.
Þetta passar illa við þann áróður sem Samtök atvinnulífsins bera út og stjórnvöld og Seðlabankinn enduróma, að það séu fyrirtækin sem standa illa og launafólkið verði að hlaupa undir bagga með því að semja um kjarastöðnun og jafnvel kjararýrnun. Kenningin er að það sé skúringakonan sem keyri upp verðbólgu með frekju sinni en ekki fyrirtækin sem hækka vöru og þjónustu til að auka enn við hagnað sinn.
Þessi áróður á sér enga stoð. Þvert á móti virðist staðan vera sú að fyrirtækin standa frábærlega en heimili hinna tekjulægstu, sem eru fórnarlömb verðbólgu og kjararýrnunar, eru að falla. Betur sett heimili hafa bolmagn til að taka á sig högg, en þau sem ekki náðu endum saman fyrir verðbólgu er í stórkostlegum vanda í dag.
Erlendis er þessi staða kölluð lífskjarakrísa. Fókusinn er á versnandi lífskjör launafólks, einkum hinna lægst launuðu. Hér er fókusinn hins vegar á mögulegan hagnaðarsamdrátt fyrirtækja einhvers staðar inn í framtíðinni. Og þess vegna verði að halda niðri launum fólksins sem á varla fyrir mat.