Þrátt fyrir 13,8% hækkun húsnæðisbóta um áramótin ofan á 10,0% hækkun síðasta sumar eru grunnbæturnar aðeins 765 kr. hærri á föstu verðlagi í dag en þær voru í ársbyrjun 2017. Og ljóst er að bæturnar munu brenna hraðar upp núna vegna meiri verðbólgu. Jafnvel þótt bjartsýn verðbólguspá, sem lá til grundvallar kjarasamninga Starfsgreinasambandsins, gangi eftir munu verðmæti grunnbóta skerðast á 2.300 kr. á árinu. Og hátt í 5.000 kr. ef verðbólgan lækkar ekki á árinu.
Hér er miðað við almennt verðlag. Sé miðað við vísitölu leiguverðs þá eru grunnbæturnar nú 3.330 kr. lægri en þær voru í ársbyrjun 2017. Grunnbæturnar eru hámarksbætur einstaklings. Munurinn hjá fjögurra manna fjölskyldu er 5.586 kr. á mánuði, rétt rúmlega 67 þús. kr. á ári. Miðað við verðbólguspár gæti þessi upphæð jafngilt 112 þús. kr. á ári og 145 þús. kr. ef verðbólgan gengur ekki niður.
Húsnæðisbætur hækkuðu ekkert fyrstu þrjú ár ríkisstjórnarinnar og aðeins lítillega fjórða árið og ekkert það fimmta. Það var ekki fyrr en í sumar og um áramótin sem ríkisstjórnin hækkaði bæturnar. Líklega má tengja þetta starfi Samtaka leigjenda, en starf þeirra lá niðri fram undir áramótin 2021/22.
Ef við reiknum upp bæturnar frá 2017 hafa einstaklingar fengið 364 þús. kr. minna í bætur frá þeim tíma til ársloka 2023, en þeir hefði fengið ef bæturnar héldu verðgildi sínu. Munurinn hjá fjögurra manna fjölskyldu er 610 þús. kr.