Íbúðir seldar með meira en 150% álagningu

95 íbúðir í húsum sem eru í bygging á Héðinsreitnum við Ánanaust og Vesturgötu eru verðsettar á um 11 milljarða króna. Að meðaltali kostar hver fermetri um 1.120 þús. kr. Dýrasta íbúðin er 278 fermetra fjögurra herbergja íbúð á 416 m.kr. 43 fermetra stúdíóíbúð kostar 55,9 m.kr. eða 1.288 þús. kr. fermetrinn.

Eigandi húsanna, sem kallast Vesturvin, er Festir hf. sem er byggingafyrirtæki Ólafs Ólafssonar kenndum við Samskip, einum helsta leikanda í bankabólunni og Hruninu 2008. Ólafur var starfsmaður Sambandsins á árum áður og eignaðist Samskip og aðrar eignir Sambands íslenskra samvinnufélaga þegar Sambandið leystist upp. Festir hf. stendur auk bygginganna við Ánanaust að byggingu húsa í Vogabyggð, nýju hverfi sem byggt er á lóð sem áður tilheyrði Samvinnuhreyfingunni en er nú einkaeign Ólafs.

Hagstofan heldur utan um uppreiknaðan byggingarkostnað á blokkaríbúð miðað við byggingatæknina eins og hún var árið 1987. Samkvæmt þeim útreikningum er byggingarkostnaður 276 þús. kr. fermetrinn. Inn í þá tölu vantar ýmsan kostnað svo sem lóð, en þó ekki svo mikinn að útreikningar Hagstofunnar nái aðeins til 1/4 af söluverðinu á Héðinsreitnum.

Fyrir þrjátíu árum komu í sölu íbúðir í hvítu húsunum við Skúlagötu. Þessi hús marka upphafið að þéttingu gömlu hverfanna í miðborginni, voru byggð á lóð sem áður var iðnaðarsvæði eins og húsin á Héðinsreitnum. Samkvæmt auglýsingu í Morgunblaðinu í apríl 1992 mátti kaupa 62 fermetra 2ja herbergja íbúð á 6,7 m.kr. í hvítu húsunum á Völundarreitnum. Það verð jafngildir í dag 31,6 m.kr. sé miðað við byggingarvísitölu, sem inniheldur bæði hækkun launa og byggingarefnis. 

Á Héðinsreitnum er hægt að kaupa 58 fermetra 2ja herbergja íbúð á 73,9 m.kr. og 65 fermetra íbúðir á 66,6 m.kr. Verðmunurinn liggur í misstórum svölum, staðsetningu og útsýni. Verð þessara íbúða er 1.021 þús. kr. fermetrinn og upp í 1.274 þús. kr. 

Verðið á íbúðinni á Völundarreitnum við Skúlagötu var 510 þús. kr. á fermetrann, uppreiknað samkvæmt byggingarkostnaði. Íbúðirnar á Héðinsreitnum eru því 100% dýrari eða 150% dýrari. Ef við gerum ráð fyrir að verktakar hafi lagt 20% á íbúðirnar við Skúlagötu fyrir þrjátíu árum má ætla að álagning ofan á byggingarkostnað sé nú orðin 150% og allt að 215%.

Þessar íbúðir eru auðvitað ekki alveg eins. Það kann að vera að eitthvað sé í raun dýrara á Héðinsreit en var á Völundarreit. Eða öfugt. Við Völundarreit eru t.d. bílastæðahús, en aðeins allra stærstu eignirnar á Héðinsreit fá yfirbyggt bílastæði. En þessi samanburður sýnir ágætlega þróunina á húsnæðismarkaði á undanförnum áratugum. Íbúðaverð hefur skrúfast upp, langt umfram framleiðslukostnað. Almenningur borgar sífellt hærra verð og skuldar meira, greiðir meiri vaxtakostnað ævina á enda. En lóðabraskarar og verktakar mata krókinn.

Festir, fyrirtæki Ólafs Ólafssonar, á lóðina, skipuleggur hana og ræður verktaka til að sjá um framkvæmdir og sér svo sjálft um söluna. Reikna má með að stærsti hluti hagnaðarins lendi hjá Festi. Það er Jáverk sem reisir húsin, en það verktakafyrirtæki hefur verið rekið með góðum hagnaði undanfarin ár og greiddi eigendum sínum út einn milljarð króna í arð í fyrra.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí