Undir árslok 2022 fékk íslenska ríkið slæma útreið í svokallaðri GREVIO-skýrslu þar sem fjallað er um um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi á Íslandi.
Annað má þó skilja á vef stjórnarráðsins þar sem segir beinlínis að Ísland komi vel út í skýrslunni og vísað er í orð dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar: „Þetta er jákvæð skýrsla í nær alla staði fyrir Ísland og undirstrikar fyrst og fremst þann einhug sem hefur ríkt innan míns ráðuneytis, og reyndar allrar ríkisstjórnarinnar, um þann forgang sem þessi mál eiga að njóta.“
Skýrslan er byggð á aðsendri skýrslu íslenskra stjórnvalda, einskonar sjálfsmati, auk gagnaöflunar frá samtökum sem láta sig málaflokkinn varða hér á landi og loks heimsókn nefndar Evrópuráðsins, sem er ábyrg fyrir skýrslunni, vorið 2022.
Í skýrslunni eru gerðar athugasemdir við fjölda niðurfellinga í kynferðisbrotamálum gegn konum, skort á úrræðum fyrir konur af erlendum uppruna, konur sem búa utan þéttbýlis og konur með fötlun. Þá er skortur á skráningu gagna gagnrýndur sem veldur því að erfitt er að fá heildarmynd af fjölda mála, ákæra og sakfellinga sem kemur svo í veg fyrir að hægt sé að rannsaka málaflokkinn sem skildi og meta skilvirkni réttakerfisins.
Baráttusamtökin Líf án ofbeldis fjölluðu um útkomu skýrslunnar á facebook síðu sinni og kölluðu skýrsluna kolsvarta: „Nefndin lýsir þungum áhyggjum af meðferð sýslumanna, dómstóla og barnaverndaryfirvalda á málum þolenda heimilis- og kynferðisofbeldis, hvað varðar forsjá og umgengni, og gagnrýnir meðal annars harðlega notkun hugmynda sem skortir vísindalegt réttmæti þegar þolendur greina frá ofbeldi annars foreldrisins, hugmynda um foreldraútilokun (e. Parental alienation), hér oftast talað um tálmun á umgengni.“
Krafan um samfélagsbreytingar
GREVIO-skýrslan birtist þegar fimm ár eru liðin frá því að #metoo byltingin hófst á Íslandi en frá því um haustið 2017 telur #metoo nokkrar bylgjur á Íslandi. Þetta eru bylgjur sem enn sér ekki fyrir endann á, en #metoo byltingin er án ef með áhrifamestu breytingum sem orðið hafa á íslensku samfélagi og menningu í seinni tíð. #metoo hefur gert kröfur um miklar breytingar í íslensku samfélagi, einna helst hafa verið áberandi kröfur um breytingar í samskiptum kynjana, á lögum landsins, í dómskerfinu og í heilbrigðiskerfinu.
Og nú, fimm árum eftir að #metoo hófst, tilkynntu stjórnvöld undir árslok um nokkur verkefni sem miða að því að svara kröfum byltingarinnar.
Vinna heilbrigðisráðuneytisins í þessum málum er áberandi en vorið 2021 var Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur, ráðin til að móta og innleiða verkefni um samræmt verklag og bætta þjónustu heilbrigðiskerfisins við þolendur heimilisofbeldis.
Með þessu fyrsta svari við kröfum #metoo á að „forrita og setja upp í sjúkraskrá rafrænt skráningarform sem styður við bætt verklag. Markmið vinnunnar er að tryggja þolendum heimilisofbeldis sem besta þjónustu og þróa og efla þjónustuna til lengri tíma litið.“ Í bættri þjónustu felst að öll þau sem sækja sér heilbrigðisþjónustu vegna heimilisofbeldis fá tilvísun til félagsráðgjafa með sérfræðiþekkingu í málaflokknum auk þess sem boðið verður upp á þjónustu sálfræðings.
Annað verkefni sem tengist kröfum #metoo byltingarinnar er greining sem unnin verður í samstarfi þriggja ráðuneyta, dómsmálaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Greining verður gerð á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis með það að markmiði að finna leiðir til að tryggja starfsemi þeirra til framtíðar. Þjónustumiðstöðvarnar sem um ræðir eru Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri og Sigurhæðir á Selfossi.
Af svipuðum meiði er vinna starfshóps á vegum félags- og vinnumarkaðsráðherra sem skoðar laga- og reglugerðarumhverfi þjónustu vegna ofbeldis. Starfshópurinn mun setja fram tillögur um hvernig megi tryggja þá þjónustu sem þolendum og gerendum ofbeldis þarf að standa til boða en Ísland er aðili að Istanbúl samningnum. Istanbúl samningur Evrópuráðsins fjallar um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi og þar er kveðið á um skyldur samningsaðila til að tryggja vernd og stuðning gegn ofbeldi. En eins og áður hefur komið fram fá íslensk stjórnvöld áfellisdóm í nýlega birtri GREVIO skýrslunnar sem fjallar um þennan málaflokk.
Nánari upplýsingar um aðgerðir sem styðja við þolendur ofbeldis má sjá á vef stjórnaráðsins.