Vísitala byggingarkostnaðar hækkar um 1,9% í þessum mánuði. Þetta er hækkun sem jafngildir 25,3% árshraða verðbólgu. Mestu ræður 3,2% hækkun launa, en þetta er fyrsti mánuðurinn þar sem launasamningarnir fyrir áramót koma að fullu inn. En laun eru aðeins 1/3 af byggingarvísitölunni. Annað en laun hækkar um rúm 0,8% sem jafngildir um 10,4% verðbólguhraða.
Það er því ekki svo að byggingarvísitalan auki fólki bjartsýni um lækkun verðbólgu. Einu slíku merkin er lækkun á söluverði sérbýlis og stöðnun í hækkun á íbúðum í fjölbýli. En sú mæling er ekki raunveruleg verðbólgumæling, mælir ekki hækkun vara og þjónustu sem fólk notar og neytir, heldur mæling á eignarverði.
Kulnun húsnæðismarkaðar mun draga úr hækkun neysluvísitölunnar íslensku þar sem sveiflur á fasteignamarkaður, það er eignamarkaður, vigtar um 1/5. En aðrar vísitölur sem mæla verðbreytingar á þjónustu, neysluvöru og öðru utan eignamarkaða, sýna ekkert lát á verðbólgunni.
Síðustu tólf mánuði hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 12,1%. Með nýgerðum samningum fer hækkun vinnunnar upp í 13,0% á síðustu tólf mánuðum. En á sama tíma hefur innflutt efni hækkað um 13,8%, meðal annars vegna veikingar krónunnar, og innlent efni um 12,0%. Vélar og tæki hafa hækkað um 10,9% á sama tíma.
Framundan er heilt ár án samningsbundinna launahækkana samkvæmt kjarasamningum. Það er því hætt við að verðbólgan muni éta hratt niður kaupmáttinn.