Enn bætist í hóp þeirra leik- og grunnskóla sem glíma við mygluvandamál eða eftirköst vegna myglu en Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar staðfestir í viðtali við Vísi að þrír skólar til viðbótar hafi nú bæst við skólana á Höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru skólarnir Maríuborg, Garðaborg og Hálsaskógur.
Mygla fannst undir gólfdúk á leikskólanum Maríuborg í Grafarholti sem var tekinn í notkun fyrir aðeins tuttugu árum síðan en myglan er af ólíkum toga í skólunum.
Helgi segir borgina hafa lært af þeim málum sem hafi komið upp undanfarin ár og að viðbrögð séu skilvirkari. Þá sé fylgst betur með byggingunum og sé það í höndum svokallaðra fasteignastjóra. Niðurstaða eftirlitsins er að mismunandi byggingarlagi, byggingartíma og byggingarefnum fylgi frekar myglumyndun og eru því fleiri mál að koma í ljós. Þá er ekki óeðlilegt að opinberar byggingar frá árunum 1950, ´60 og ´70 séu löngu komnar á viðhaldstíma.
Helgi segist ekki vita til þess að fólk hafi kvartað undan einkennum en þó eru til frásagnir bæði starfsfólks og foreldra sem segja frá miklum veikindum barna sinna. Dæmi um slíkt er frásögn Guðrúnar Ástu í Íslandi í Dag, frá seinni hluta októbermánaðar 2022 af syni sínum sem hefur aðeins átt eitt ár óslitið af skólagöngu sinni við Fossvogsskóla í Reykjavík frá fyrst til sjöunda bekkjar. Fossvogsskóli var einn fyrsti skólinn í Reykjavík sem átti við stórtækt mygluvandamál að stríða en þar kom upp mygla árið 2018 sem olli því að flytja þurfti allt skólastarf á þrjá nýja staði. Í sumar lauk framkvæmdum við skólann en sonur Guðrúnar Ástu verður enn veikur við það að fara inn í bygginguna.
Í Kársnesskóla í Kópavogi kom einnig upp stórtækt mygluvandamál árið 2017 með þeim afleiðingum að heill skóli var jafnaður við jörðu en Kársnesskóli var rekinn í tveimur aðskildum byggingum. Í haust fannst einnig mygla í hinu húsi skólans og voru sex kennslustofur rýmdar. Nýlega hafa einnig komið upp mygluvandamál í skólum í Garðabæ, Mosfellsbæ, Grunnskóla Ísafjarðar, Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit, Grunnskólanum í Hólmavík og víðar.
Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem aðeins tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í haust. Þá voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í hundrað börn.