Í morgun var sendur út fyrsti þátturinn af Samtali á sunnudegi á Samstöðinni. Þetta eru þættir byggðir á formi sem Ævar Kjartansson þróaði á Ríkisútvarpinu og verða sendur út á sama tíma og þættir hans á sínum tíma.
Í þáttunum verða tekin fyrir ýmis málefni í syrpum. Við byrjum á verkalýðsbaráttu. Gunnar Smári Egilsson heldur utan um þættina en fær til liðs við sig sérfræðing til að leiða hverja syrpu. Í þáttunum um verkalýðsmál verður það Sigurður Pétursson sagnfræðingur sem leiðir samtalið.
Í hverjum þætti munu þeir fá einn gest til að ræða tiltekið sjónarhorn, tímabil og átakalínur. Í fyrsta þáttinn kom Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur og sagði frá upphafi verkalýðsbaráttu á Íslandi, hverjar voru rætur hennar, baráttuaðferðir, markmið og árangur. Þeir ræða líka áhrif á verkalýðsbaráttunnar á stjórnmálin og öfugt, stöðu kvenna og karla og hvernig hinn réttlausi verkalýður náði smátt og smátt að hafa áhrif á samfélagið sem hann lifði innan.
Fylgist með á Samstöðinni kl. 9 á sunnudagsmorgnum. Þættirnir verða síðan aðgengilegir á vef Samstöðvarinnar, youtube og öllum helstu hlaðvarpsveitum.