Vilhjálmur Hilmarsson hagfræðingur BHM segir hagnað fyrirtækja hafa aukist um 60% á tíma lífskjarasamningsins. Hætt er við að fyrirtækin muni velta kostnaðarhækkunum í verðlag að óþörfu á næstunni og hlutur launafólks í verðmætasköpun muni minnka á verðbólgutímum.
Vilhjálmur kom að Rauða borðinu og fór yfir rannsókn sína á auknum hagnaði fyrirtækja, sem Samstöðin hefur greint frá, sjá hér: 60% meiri hagnaðar fyrirtækja í verðbólgunni.
Vilhjálmur fór yfir þetta góðæri í fyrirtækjarekstri í samtalinu, dró sérstaklega fram hversu mikið hagnaður í verslun, smásölu og heildsölu, hefur aukist. Eigendur verslunarfyrirtækja hafa því ekki aðeins hækkað verð til að mæta hækkun aðfanga og launa heldur vel umfram það, hafa hækkað verð svo hagnaður eigenda hefur stóraukist.
Hingað til hefur athyglin fólks fyrst og fremst verið á þrjá þætti varðandi verðbólguna. Í fyrsta lagi húsnæðismarkaðinn, sem er ótaminn og villtur og spennir linnulítið upp eigna- og leiguverð. Í öðru lagi innflutta verðbólgu sem rekja má til verðhækkana erlendis vegna raskana á aðfangakeðjum í kjölfar cóvid og vegna afleiðinga stríðsins í Úkraínu. Og í þriðja lagi innlendrar eftirspurnarverðbólgu. Sem meðal annars má rekja til minni neyslu á tímum cóvid, sem gat af sér sparnað og síðan neysluþörf þegar sóttvarnaraðgerðum var hætt.
En Vilhjálmur vill draga athygli að fjórða þættinum sem er ráðandi varðandi verðbólguna, það sem kalla má hagnaðardrifna verðbólgu eða hagnaðarverðbólgu. Hún byggir á því að fyrirtækin hækka verð töluvert umfram hækkun aðfanga eða launa í skjóli skerts verðskyns neytenda. Það hefur verið augljóst á liðnum misserum að fyrirtækjaeigendur tala upp verðbólguvæntingar. Og það má líka sjá í þeim gögnum sem Vilhjálmur leggur fram, að fyrirtækjaeigendur eru að hækka verð langt umfram það sem kalla má nauðsyn. Hækkanirnar eru keyrðar áfram af sókn í aukin hagnað og arð.
Og það leiðir til kjaraskerðingar launafólks. Verðbólgan étur upp kaupmáttinn. En það veldur líka tilfærslum frá launafólki til fyrirtækjaeigenda. Hlutur launafólks í verðmætasköpuninni skerðist á meðan hlutur fyrirtækjaeigenda stækkar.
Þessum þætti hefur verið haldið frá kjaraviðræðum haustsins. Kjaraviðræður snúast um skiptingu framleiðni fyrirtækja, hversu stóran hlut fyrirtækjaeigendur haldi eftir þegar búið er að borga laun fólksins sem keyrir áfram framleiðsluna. En jafnvel þótt markmiðið sé ekki að stækka hlut lauanfólks á kostnað fyrirtækjaeigenda, er ekki nóg að verðtryggja launin, hækka þau í takt við verðbólgu, heldur þarf líka að hækka þau í takt við aukna framleiðni. Ef það er ekki gert eykst hlutdeild fyrirtækjaeigenda og þar með hagnaður þeirra og arður.
Vilhjálmur segir nauðsynlegt að stóru launþegahreyfingarnar, ASÍ, BSRB og BHM, sameinist um að styrkja verðvitund neytenda til að verjast hækkunum á vöru og þjónustu sem drifnar eru af sókn í aukinn hagnað. Hann bendir á að víðast sé betra eftirlit með þessu en hér á landi. Verslunareigendur hafi til dæmis verið kallaðir fyrir norska stórþingið að svara fyrir hækkanir umfram tilefni í haust. Slíkar hækkanir hafi mjög slæmar afleiðingar og þeim ber að halda niðri.
Sjá má og heyra viðtalið við Vilhjálm í spilaranum hér að ofan.