Sólveig Anna vill fund með vinnumarkaðsráðherra

„Ég óska því eftir að þú takir á móti mér að morgni mánudagsins næstkomandi 30. janúar. Ég legg þunga áherslu á að þú eigir fund með mér eigi síðar en á þeim tíma, þar sem seinna þann dag mun fara fram fyrirtaka í fyrrnefndu dómsmáli sem ríkissáttasemjari hefur höfðað og um kvöldið verða tilkynnt úrslit atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun Eflingarfélaga hjá Íslandshótelum,“ skrifaði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar í bréf til Guðmundar Inga Guðbrandssonar vinnumarkaðsráðherra í gærkvöldi.

Guðmundur Ingi sagði í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefði kynnt fyrir sér miðlunartillöguna daginn áður en hún var lögð fram og að hann, ráðherrann, hefði engar athugasemdir gert við hana. Þegar tillagan kom fram reis gervöll hreyfing launafólks á fætur og fordæmdi hana. Alþýðusambandið og fleiri efuðust um lögmæti hennar, allir voru sammála um að hún gengi þvert á hefðir varðandi aðgerðir sáttasemjara í vinnudeilum og að tillagan væri sett fram á slæmum tíma, í miðri verkfallsboðun verkalýðsfélags. Þar fyrir utan er tillagan samhljóða tilboði fyrirtækjaeigenda en tekur ekkert tillit til krafna verkafólksins.

„Það sem hefur verið gagnrýnt í þessu er kannski það að hún skuli hafa verið lögð fram án þess að aðilarnir séu sáttir við það og hvenær hún er lögð fram,“ sagði Guðmundur Ingi hins vegar í kvöldfréttum. „Ég skil alveg gagnrýni á tímasetninguna einfaldlega vegna þess að það er kosning í gangi um verkfallsboðun. Ég sýni því skilning.“

Hann sagðist hins vegar ekkert ætla að aðhafast þótt hið mikilvæga embætti ríkissáttasemjara stæði í ljósum logum. Sagði að Aðalsteinn hefði sjálfsdæmi um viðbrögðin.

Eftir fréttirnar sendi Sólveig Anna eftirfarandi bréf til ráðherrans og krafðist fundar með honum:

„Þrátt fyrir augljósa lagalega annmarka, skýrar vísbendingar um hlutdrægni, stórkostlega skert traust verkalýðshreyfingarinnar á embætti ríkissáttasemjara og fjölmargar áskoranir um að embættið dragi svonefnda miðlunartillögu sína til baka hefur embættið ekki gert það, heldur þvert á móti aukið á forherðingu sína. Kom það berlega í ljós síðastliðinn föstudag þegar embættið lét Héraðsdóm Reykjavíkur birta Eflingu fyrirkall vegna dómsmáls þar sem krafist er afhendingar á viðkvæmum persónuupplýsingum Eflingarfélaga, án þess að fyrir slíkri afhendingu séu lagaheimildir svo sem félagið hefur lýst ítarlega í samskiptum við embættið sem félagið hefur birt opinberlega.

Í ljósi pólitískrar og stjórnsýslulegrar ábyrgðar þinnar á framlagningu ríkissáttasemjara á svokallaðri miðlunartillögu, svo og á tilhæfulausri kröfu embættisins um afhendingu gagna úr félagaskrá Eflingar, geri ég kröfu um að fá áheyrn þína án tafar.

Ég óska því eftir að þú takir á móti mér að morgni mánudagsins næstkomandi 30. janúar. Ég legg þunga áherslu á að þú eigir fund með mér eigi síðar en á þeim tíma, þar sem seinna þann dag mun fara fram fyrirtaka í fyrrnefndu dómsmáli sem ríkissáttasemjari hefur höfðað og um kvöldið verða tilkynnt úrslit atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun Eflingarfélaga hjá Íslandshótelum.

Ég undirstrika við þig að um er að ræða grafalvarlegt fordæmisgefandi mál sem snýr að lögmæti stofnana aðila vinnumarkaðarins, grundvallarréttindum vinnandi fólks og því trausti sem verkafólki verður unnt að bera til opinbers ramma vinnumarkaðsmála á Íslandi til framtíðar. Ég bið þig að vanmeta ekki þann þunga sem Efling – stéttarfélag mun fyrir sitt leyti setja í viðbrögð vegna þessa máls og eftir atvikum beina að þeim stofnunum hins opinbera sem á því bera ábyrgð. Því höfða ég til ábyrgðar þinnar sem ráðherra vinnumarkaðsmála að verða við ósk minni um fund án vífilengja.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí