Starfsgreinasambandið er hætt með Eflingu

„Segja má að Starfsgreinasambandið sé hætt með Eflingu,“ svaraði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar þegar Samstöðin spurði hvort Efling væri á leið út úr SGS. „Ég held að félagsfólk Eflingar muni ekki hafa mikinn áhuga á þessum félagsskap eftir það sem að við höfum orðið vitni að,“ sagði Sólveig Anna.

Á þingi Starfsgreinasambandsins síðast liðið vor fékk Sólveig Anna ekki kjör í stjórn sambandsins þótt hún leiði félag með rétt tæpum helmingi félagsfólks sem heyra undir SGS. Efling kom lítið að mótun kröfugerðar SGS og lagði fram sína eigin. Og Efling kom ekki að samningum SGS við Samtök atvinnulífsins, sem vitað er að byggði fyrst og fremst á samkomulagi Vilhjálms Birgissonar formanns SGS og Ragnars Árnasonar forstöðumanns vinnumarkaðssviðs SA, um skammtímasamning sem þeir gerðu áður en raunverulegar viðræður hófust.

Efling gagnrýndi þessa samninga út frá mörgum forsendum, eins og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR gerði einnig. Gagnrýnt var að skammtímasamningur eyðilagði möguleika á að sækja raunverulegar umbætur til stjórnvalda á húsnæðiskerfi, skattkerfi og öðrum grunnkerfum samfélagsins sem vinna gegn almenningi en lyfta undir fjármagns- og fyrirtækjaeigendur. Þá var einnig gagnrýnt að launahækkanir væru of lágar, bæði þegar tekið væri tillit til verðbólgu og þess að hluti þeirra tilheyrði í raun eldri samningi, hinn svokallaði hagvaxtarauki upp á 13 þús. kr.

Gagnrýnin kom frá félögum sem áttu eftir að semja og sem vildu ná meiru út úr sínum samningunum. Í dag gagnrýna hins vegar formenn innan Starfsgreinasambandsins Eflingu í sinni baráttu, fyrir aðferðir og ógerða samninga.

Vilhjálmur Birgisson formaður SGS sagði á Bylgjunni í morgun að Efling væri að fórna miklum hagsmunum og skerða kjör síns fólks með því að stefna á verkföll. Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju á Akureyri og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar á Húsavík hafa sagt Eflingu vera að egna verkafólki á höfuðborgarsvæðinu gegn verkafólki á landsbyggðinni með kröfu um sérstaka framfærsluuppbót vegna hærri húsaleigu fyrir sunnan.

„Hver hefði trúað því að stéttarfélag íslensks láglaunafólks myndi krefjast þess að Samtök atvinnulífsins samþykktu að innleiða misskiptingu í launakjörum meðal láglaunafólks í sömu starfsgreinum eftir því í hvaða landshlutum þeir starfa? Já, það er illa komið fyrir íslenskri verkalýðshreyfingu,“ skrifaði Aðalsteinn í grein á Vísi.

Sólveig Anna svaraði þessu á Facebook og sagði sorglegt að Aðalsteinn ráðist að baráttu félagsfólks Eflingar fyrir mannsæmandi launum með yfirgengilegum útúrsnúningum og þvaðri. „Hörmulegt að verða vitni að því hvað menn eru tilbúnir til að leggjast lágt í þeim auma tilgangi að koma í veg fyrir að Efling geri Eflingar-samning fyrir Eflingar-fólk. Ég og félagar mínir vissum að það væri víða pottur brotinn í íslenskri verkalýðshreyfingu en sú lágkúra sem við verðum nú vitni að hlýtur að slá öll fyrri met,“ skrifaði Sólveig Anna.

Sverrir Albertsson, framkvæmdastjóri Afl starfsgreinafélags á Austurlandi, skrifar grein á Kjarnann í morgun og hvetur til þess að forystufólks SGS hætti andstöðu við kjarabaráttu Eflingar og styðji hana frekar. Hann varar við klofningi.

Ólíklegt er að Efling taki afstöðu til aðildar að Starfsgreinasambandinu fyrr en eftir kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins. Samkvæmt lögum félagsins þurfa 2/3 þeirra sem greiða atkvæði með úrsögn að samþykkja hana. En nokkuð ljóst er að Efling mun lítinn þátt taka í starfi SGS á næstunni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí