Verðbólga eykst á Íslandi en dregst saman í Evrópu

Verðbólga síðustu tólf mánuði var 7,2% á Íslandi samkvæmt samræmdri evrópsku neysluvísitölunni. Tólf mánaða verðbólgan hefur hækkað stöðugt frá í haust. Það er hins vegar tekið að draga úr verðbólgu á Evrópska efnahagssvæðinu. Á meðan verðlag hækkaði hérlendis um 0,6% í desember lækkaði verð almennt í Evrópu um 0,2%. Verðbólgan síðustu tólf mánuði er þó enn hærri í Evrópu en á Íslandi, eða 10,3%.

Samræmda evrópska neysluvísitölunni mælir ekki kaupverð húsnæðis, sem vigtar rétt tæplega 20% í neysluvísitölu Hagstofunnar. Kaupverðið er hætt að hækka á Íslandi, svo það spennir ekki lengur upp vísitöluna. Húsaleiga heldur hins vegar áfram á hækka mikið á Íslandi, en þar sem húsaleigan er aðeins rúmlega 4% af vísitölunni veldur það ekki mikilli hækkun hennar. Leigjendur fá yfir sig kaupmáttarrýrnun sem ekki mælist í vísitölu Hagstofunnar.

Húsaleiga er hins vegar inn í evrópsku vísitölunni. Þar er hún ásamt rafmagni og hita í undirvísitölu sem mælir húsnæðiskostnað. Og það er þessi liður, og þá orkuhlutinn sérstaklega, sem hefur keyrt upp verðbólguna í Evrópu. Hækkun húsnæðiskostnaðar á Evrópska efnahagssvæðinu hefur verið 17,2% á liðnum tólf mánuðum en 10,0% á Íslandi. Í Evrópu er hækkunin drifin áfram af orkuverði vegna orkuskorts í kjölfar innrásar rússneska hersins í Úkraínu. Hér er hækkunin drifin áfram af hækkun húsaleigu vegna skorts á húsnæði sem er afleiðing stefnu hins opinbera. Búast má við að orkuverð í Evrópu sé hætt að hækka og muni lækka á næstu mánuðum. Það má hins vegar reikna með enn meiri hækkunum á húsaleigu á Íslandi næstu mánuðina.

Það er aðeins einn liður sem hefur hækkað meira á Íslandi en í Evrópu á liðnum tólf mánuðum, ferðir og flutningar. Þar inni er verð á flutningum, bifreiðum, almenningssamgöngur en ekki síst bensínverð. Ferðir og flutningar hafa hækkað um 7,8% síðustu tólf mánuði í Evrópu en um 12,5% á Íslandi. Sem er rannsóknarefni. Hvaða rök eru fyrir því að þessi liður hækki svo mikið meira á Íslandi en í Evrópu?

Samkvæmt samræmdri neysluvísitölu Evrópu var verðbólga síðustu tólf mánaða í Evrópu þessi í desember:

Þótt þetta séu ljótar tölur þá hafa þær skánað eilítið síðustu tvo, þrjá mánuði. Nema á Íslandi. Í haust var verðbólgan lægst í Sviss og svo á Íslandi. Nú er Ísland í sjötta sætinu, með verðbólgu líka og í Frakklandi og Grikklandi.

Hér má svo sjá verðbólgu á Íslandi og á Evrópska efnahagssvæðinu frá ársbyrjun 2005:

Þarna má fyrst sjá afleiðingar gengisfalls vegna Íslandskreppunnar 2006 og síðan Hrunsins 2008, sem lék íslenskt efnahagslíf verr en flest önnur lönd. Öfugt við það sem valdastéttin heldur nú fram.

Með hingað komu ferðamanna um og uppúr 2011 dró úr mun á verðbólgu hér og í Evrópu. Síðan þá hefur verðbólgan oftar en ekki verið minni hér en á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þetta kann að breytast. Eins og sést lengst til hægri á línuritinu, næst okkur í tíma, er verðbólga að minnka í Evrópu en að aukast hratt á Íslandi. Og miklar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa engin áhrif á þessa vísitölu þar sem kaupverð húsnæðis er ekki þarna inni. Vaxtahækkunin hefur fryst sölumarkað húsnæðis, æ færri hafa efni á að kaupa íbúð á þeim vaxtakjörum sem bjóðast. En vaxtahækkunin hefur engin áhrif haft á aðra þætti verðbólgunnar.

Það er þensla á Íslandi sem ýtir undir verðbólgu. Gengi krónunnar hefur gefið eftir sem hækkar verð á innfluttum vörum. Og hér geisar hagnaðardrifin verðbólga, fyrirtækin eru að hækka verð á vörum og þjónustu vel umfram aukinn kostnað. Fyrirtækjaeigendur nýta sér veikt verðskyn almennings á verðbólgutímum til að auka hagnað sinn. Stjórnvöld eru ekki með neinar aðgerðir til að standa gegn slíkum hækkunum. Þar sem kaupverð húsnæðis vegur þungt í íslensku vísitölunni einblína þau á að lemja niður sölumarkað íbúða svo opinber verðbólga mælist lægri.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí