Samninganefnd Eflingar gefur Samtökum atvinnulífsins og ríkissáttasemjara fram á þriðjudag að hefja raunverulegar samningaviðræður, að öðrum kosti muni félagið lýsa viðræðurnar árangurslausar og hefja undirbúning verkfalla. Þá yrði verkfallsboðun lögð fyrir félagsfólk í almennri atkvæðagreiðslu.
Efling krefst þess sama og er í samningum SA við Starfsgreinasambandið en 5.000 kr. meira fyrir þau sem eru að hefja störf hjá fyrirtæki en síðan auknar starfsaldurshækkanir sem þó koma öðruvísi út en hjá SGS, þannig að mesta hækkunin kemur ekki eftir fimm ára starfsaldur heldur eftir átján mánuði og þrjú ár. Auk þess er krafist 15 þús. kr. framfærsluuppbótar upp á 15 þús. kr. sem ekki leggst við launatöfluna né hækkar yfirvinnu eða vaktagreiðslur. Rökin fyrir þessari kröfu er há framfærsla á svæði Eflingar, einkum vegna stjórnlauss húsnæðismarkaðar sem grefur undan lífskjörum láglaunafólks. Efling vitnar í opinber gögn sem segja að húsnæðiskostnað 45% dýrari á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu.
Þetta síðasta er nokkur nýjung á Íslandi en það þekkist t.d. í Bandaríkjunum að lágmarkslaun séu hærri í stórborgum þar sem framfærslubyrði, og þá einkum húsnæðiskostnaður, er hærri en í dreifðari byggðum.
Ef viðræður fara ekki á skrið í dag eða morgun mun Efling lýsa þær árangurslausar og stjórn félagsins óska eftir verkfallsheimild hjá félagsfólki. Það tekur um viku, tíu daga. Ef allt gengur vel má reikna með verkföllum undir mánaðamót.
Og það er líklegast að af þeim verði. SA hefur þvertekið að semja með örðum hætti en við SGS. Til að knýja það fram getur Efling beitt verkföllum. Félagar í Eflingu munu þá reikna saman kostnaðinn við verkfallið, þ.e. töpuð laun, og mögulegan ávinning. Og fyrirtækin munu gera það sama, reikna saman tapaðar tekjur á móti hækkun launa. Forysta SA mun reikna með pólitískan ávinning af að verjast kröfum Eflingar, en það er ekki víst að einstakir fyrirtækjaeigendur telji það vega þungt.
Lægstu laun samkvæmt kröfu Eflingar eru 407.235 kr. Með 15 þús. kr. framfærsluuppbót myndi þetta skila fólki 337.529 kr. útborguðum. Miðað við framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara frá í sumar er framfærslukostnaður án húsnæðiskostnaðar (leiga, rafmagn, hiti, hússjóður o.fl.) um 200 þús. kr. í dag. Dagvinna á þessum taxta myndi þá skila 137.500 kr. upp í húsnæðiskostnað. Að teknu tilliti til 40 þús. kr. húsnæðisbóta gæti manneskja með þessi laun greitt um 160 þús. kr. í húsaleigu. Sem er auðvitað ekki í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þessi láglaunamanneskja yrði þá áfram vinnandi fátæk, það sem kallað er á ensku working poor.
Hæstu launin í kröfugerðinni eru 479.172 kr. sem gefa 371.747 kr. útborgað, um 171 þús. kr. upp í húsnæðiskostnað. Að teknu tilliti til húsnæðisbóta ætti sá sem væri á hæsta taxta Eflingar samkvæmt tilboðinu efni á að leigja íbúð fyrir 220 þús. kr. Það er helst hjá Bjargi húsfélagi sem leigan er svo lág.