Efling gerir kröfu um að fá upplýsingar um öll samskipti sem ríkissáttasemjari og starfsmenn embættisins hafa átt við deiluaðila og aðra sem varða samráð í tengslum við undirbúning og ákvarðanatöku um tillöguna. Efling neitar að afhenda ríkissáttasemjara félagaskrá sína.
Sólveig Anna Jónsdóttir ritaði í gær 26. janúar svar fyrir hönd Eflingar til ríkissáttasemjara vegna svokallaðrar miðlunartillögu og erindis embættisins um framkvæmd atkvæðagreiðslu.
Í svarinu segir meðal annars eftirfarandi: „Efling-stéttarfélag telur að ríkissáttasemjari hafi ekki fullnægt skilyrðum laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og því sé ekki um að ræða lögmæta miðlunartillögu í skilningi laganna. Það sama á við um boðaða framkvæmd og fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar. Efling-stéttarfélag telur því nauðsynlegt að dómstólar leysi úr lögmæti aðgerða ríkissáttasemjara.“
Um krröfuna um samskipting segir: „Er m.a. óskað eftir að fá allar fyrirliggjandi skráningar um samskipti við þessa aðila á fundum, símleiðis, með smáskilaboðum, í tölvupósti, bréflega eða með öðrum hætti, sbr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.“
Hér má lesa bréfið: Bréf Eflingar til ríkissáttasemjara 26. janúar.
Að fengnum viðbrögðum frá ríkissáttasemjara ritaði Sólveig Anna aftur svar í morgun 27. janúar. Þar er óbreytt afstaða félagsins ítrekuð og erindi embættisins sagt ólögmætt og markleysa. Í lok svarbréfsins segir:
„Í tilefni af niðurlagi bréfs ríkissáttasemjara, sem sent var síðdegis í gær, er rétt að taka fram að réttur félagsfólks Eflingar-stéttarfélags felst fyrst og fremst í því að samninganefnd með lýðræðislegt umboð semji um kaup og kjör félagsmanna. Hinar ólögmætu aðgerðir ríkissáttasemjara hafa það markmið að svipta Eflingu-stéttarfélag og félagsmenn þess þeim grundvallarrétti.“
Bréf Eflingar til ríkissáttasemjara 27. janúar.
Stjórn Eflingar lýsti í gær vantrausti á ríkissáttasemjara. Félagið hafnaði lögmæti svonefndrar miðlunartillögu með yfirlýsingu fyrir hádegi í dag, og fordæmdi vinnubrögð ríkissáttasemjara.
Miðstjórn Alþýðusambandsins hefur gagnrýnt aðgerð ríkissáttasemjara og sagt að traust á hann hafi skaðast, sjá hér: ASÍ skorar á Aðalstein að draga miðlunartillöguna til baka. Í morgun kom yfirlýsing frá BSRB, BHM og KÍ, sjá hér: Sáttasemjari slær verkfallsvopnið úr höndum Eflingar.