33 þús. kr. aukin greiðslubyrði á hverjar 10 m.kr. sem fólk skuldar

Vaxtahækkanir Seðlabankans eru alvarlegar fjárhagslegar hamfarir fyrir fólk með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Þegar síðasta hækkun verður komin fram í vöxtum bankanna má reikna með að greiðslubyrði íbúðakaupenda hafi hækkað um rúmar 33 þús. kr. fyrir hverjar 10 m.kr. sem þeir skulda frá því að hækkunarhrina bankans byrjaði. Það gera um 166 þús. kr. fyrir fjölskyldu sem skuldar 50 m.kr.

Til að geta borgað 166 þús. kr. meira á mánuði þarf fólk að fá um 290 þús. kr. hærri laun. Það gera 145 þús. kr. á mann, ef við gerum ráð fyrir tveimur fyrirvinnum. Það er meira en tvöfalt meira en mestu launahækkanir voru í kjarasamningunum fyrir jól. Og á þá eftir að bæta launafólkinu alla aðra hækkun.

Það er því órafjarri að samningarnir fyrir jól hafi komið til móts við þennan hóp. Þær hækkanir sem samið var um ná rétt svo að halda í við verðlag, ef verðbólgan nær að hjaðna.

Og ekkert í aðgerðum ríkisstjórnarinnar bætti stöðu hópsins heldur.

Að óbreyttu mun fólk sem skuldar 50 m.kr. borga í ár næstum 2 m.kr. meira í vexti en það gerði ráð fyrir að gera áður en Seðlabankinn fór að hækka vexti.

Það er því ekki að undra að fólk færi sig yfir í verðtryggð lán. Þá lækka afborganir og greiðslubyrðin mildast. Á móti kemur að endurgreiðslan lánsins hækkar. Þótt fólk borgi minna fyrst um sinn borgar það mun meira þegar fram í sækir og miklu meira þegar upp er staðið.

Með því að skipta yfir í verðtryggð lán er fólk því að pissa í skóinn sinn, lina þjáningar dagsins en stórauka þær til lengri tíma. En það leikur sér ekki af þessu og gerir þetta ekki af heimsku, það hefur einfaldlega ekki annan kost.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí