Lestarslysið í Austur-Palestínu í Ohio hefði mátt fyrirbyggja ef fyrirhuguð uppfærsla á bremsubúnaði lestanna hefði gengið í gegn. Kostnaðurinn við það hefði numið um þrem milljörðum Bandaríkjadala, en sú upphæð er einungis 3% af þeim peningum sem lestarfyrirtækin hafa varið í það að kaupa sín eigin hlutabréf á síðustu 10 árum
Lestarslysið í Ohio er líklega eitt stærsta, ef ekki stærsta, umhverfisslys í sögu Bandaríkjanna. Tíminn mun leiða í ljós afleiðingar þessa slyss en það er með öllu óljóst hversu víðtækar þær verða. Þykkur reykjarmökkur lagðist yfir bæinn Austur-Palestínu, þúsundir dauðra fiska flutu upp bæjartjörninni, hænur bæjarbúa hafa drepist og gæludýr veikst. Yfirvöld hafa eftir sem áður haldið fram að bæjarbúar séu ekki í hættu.
Fyrir 15 árum síðan varð til nýjung í bremsubúnaði lesta sem ætlað var að bæta öryggi lesta, sérstaklega þeirra lesta sem flytja eiturefni af einhverju tagi. Árið 2015 lagði ríkisstjórn Barack Obama fram regluvæðingu sem átti að skikka lestir sem bera ákveðnar tegundir eiturefna til þess að vera komin með þennan bremsubúnað á sínar lestir fyrir 2023.
Það gekk hinsvegar ekki eftir vegna þrýstings frá lestarfyrirtækjunum. Árið 2018 var reglugerðin afnumin að mestu. Einungis lestir sem bera geislavirkann úrgang þurfa að hafa þennan nýja bremsubúnað.
Bremsubúnaður flestra lesta í dag í Bandaríkjunum er tækni frá 1868. Bent hefur verið á að vegna niðurskurðar lestafyrirtækjanna í mannauðsmálum skortir þekkingu og reynslu sem gæti betur tryggt öryggi lestanna. Með þessu gamla bremsukerfi bremsar einn vagn í einu og getur það valdið mikilli hættu ef lestarvögnunum er ekki raðað rétt upp. Þyngri vagnar skella á léttari vagna og valda slysi. Þetta hafa regnhlífasamtökin Railworkers United bent á. Og þetta virðist hafa orðið tilfellið í þessu slysi.
Annað slys á vegum sama fyrirtækis, Norfolk Southern átti sér stað á þriðjudaginn síðasta í nánd við Detroit. Sú lest var líka með bremsubúnað sem var fundinn upp 1868.
Það vekur töluverða athygli og gagnrýni að kostnaður lestarfyrirtækja í Bandaríkjunum við verða við þessari breytingu hefðu einungis numið um þrem milljörðum dollara. Það kann að virðast mikið en til samanburðar hafa lestarfyrirtæki í bandaríkjunum varið 33 sinnum hærri upphæð til að kaupa eigin hlutabréf. Þannig hafa þau fært meiri hagnað til hluthafanna, sem síðan hafa stækkað bónusgreiðslur til stjórnenda. Upphæðin sem hefði þurft til þess að bæta bremsubúnaðinn er því einungis um 3% af því sem fyrirtækin eyða í eigin hlutabréf.
Samgönguráðherra Bandaríkjanna, Pete Buttigieg, segir hér í tvísti að hann hafi ekki heimild til þess að koma reglugerðinni í gegn.

Hann setur ábyrgðina á ríkisstjórn Trumps fyrir að afnema reglugerðina en gagnrýnendur benda á að Biden og Buttigieg hafa heimild til þess að útvíkka reglugerðina yfir þessa tilteknu tegund af eiturefnum, sem hefði að öllum líkindum komið í veg fyrir þetta stórslys.

Mynd tekin úr lofti stuttu eftir slysið.