Almenningur fær aðeins brot af arðinum af auðlindum sínum

Indriði H. Þorláksson fór yfir það við Rauða borðið hvernig arðurinn af auðlindum almennings rennur að mestu leyti í hendur einkaaðila, fyrst og fremst til eigenda stóriðjuvera, stórútgerða og fiskeldisfyrirtækja. Indriði skaut á að arðurinn gæti verið um 100 milljarðar króna, en aðeins um 5-7 milljarðar króna eru greiddir í veiðigjöld. Indriði segir að þjóðin ætti að stefna að því að fá svo til allan arðinn til sín.

Indriði fór yfir málið í nokkrum skrefum. Færði fyrst rök fyrir að þjóðin ætti auðlindirnar. Og um það ríkir almenn sátt. En ef þjóðin á auðlindirnar þá þarf hún að ákveða hvernig hún nýtir þær.

Eitt dæmi eru hitaveitur sem eru að mestu í eigu sveitarfélaga. Þar verður ekki til neinn arður heldur nýtist auðlindin þjóðinni í formi lágs hitunarkostnaðar. Sem eykur almenn lífsgæði.

Annað dæmi er fiskveiðiauðlindin. Þar er kvóta úthlutað til valinni sem síðan greiða lágt veiðigjald fyrir. Inn í fyrirtækjunum verður til auðlindaarður, það er hagnaður sem byggir á aðgengi að auðlindum gegn vægu gjaldi. Þennan arð má reikna út með því að bera rekstur fyrirtækjanna saman við rekstur fyrirtækja almennt. Þá sést að það er umfram arður í útgerðinni, sem rekja má til auðlindanýtingarinnar.

Sambærilegt dæmi er orkuvinnslan. Þótt Landsvirkjun sé rekin með miklum hagnaði þá verður hann ekki til af auðlindaarði. Fjárfesting Landsvirkjunar er gríðarlega mikil og hagnaður fyrirtækisins er í raun renta af þeirra fjárfestingu. Auðlindaarðurinn af orkunni verður til inn í stóriðjunni sem selur framleiðsluna á markaði í samkeppni við fyriræki sem greiða hærri orkukostnað.

Auðlindarentan í fiskveiðum og stóriðju sveiflast með verði á afurðunum. Þegar heimsmarkaðsverð á fiski og ál er hátt, eins og raunin er nú um stundir, verður auðlindaarðurinn gríðarlegur. Þegar verð lækkar minnkar auðlindaarðurinn hratt.

Stóriðjan greiðir ekkert auðlindagjald og heldur ekki fiskeldið sem nýtir haf og firði til að rækta fisk. Auðlindagjald eða -skattur er innheimtur af fiskeldi í Noregi en ekki hér.

Og þá komum við að þriðju spurningu, ef þjóðin á auðlindir og auðlindirnar skapa auðlindaarð, á þjóðin þá að innheimta gjald af nýtingu auðlinda og þá hversu mikið?

Indriði segir að þjóðin eigi að miða við að allur auðlindaarðurinn sé hennar. Hún getur ákveðið að eyða honum með því að dreifa nýtingu auðlinda til þjóðarinnar líkt og gert er með hitaveitunum. Hún getur leigt auðlindirnar út fyrir fast verð eða sett nýtinguna á uppboð. Og hún getur skattlagt auðlindaarðinn eftir á, eins og gert er með tekjuskatti.

Indriði sagði að vandinn væri ekki innheimtan, þótt umræðan hér færi oft í þann fasa að fólk væri að deila um útfærslu. Innheimtan er bara tæknilegt úrlausnarefni. Við ættum frekar að ræða um eignarrétt þjóðarinnar á auðlindunum, meta hversu mikil verðmæti liggja í auðlindunum. Það er undarlegt að ekki liggur fyrir neitt opinbert mat á verðmæti auðlindanna. Þegar við sjáum hver verðmætin eru ættum við að ræða hvernig við viljum verja þeim. Í dag gefum við þessi verðmæti meira og minna. Það getur varla verið vilji þjóðarinnar.

Sjá má og heyra viðtalið við Indriða í spilarnum hér að ofan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí