Efling mun aldrei gefast upp fyrir ofbeldi og ógnarstjórn

Verkalýðsmál 27. feb 2023

„Efling mun aldrei gefast upp fyrir ofbeldi og ógnarstjórn. Efling fordæmir verkbann Samtaka atvinnulífsins og mun berjast gegn því af alefli. Sterkasta afl verkafólks er fjöldinn og samstaðan, og félagið mun sýna þann styrk í verki í baráttu gegn verkbanninu á næstu vikum,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og boðar aðgerðir gegn boðuðu verkbanni SA.

Sólveig skrifar grein á Vísi og segir að Efling muni boða til aðgerða strax klukkan 12 á hádegi næstkomandi fimmtudag, á þeirri stundu sem verkbannið hefst. Öllum félagsmönnum sem lenda í verkbanni verður boðið að taka þátt í þeim.

„Mikilvægt er að félagsfólk í Eflingu krefji sína atvinnurekendur um skýr svör um afstöðu þeirra til verkbanns og hvort að þeir ætli að láta fólk ganga launalaust,“ skrifar Sólveig Anna. Sett hefur verið upp könnun á vefsíðu Eflingar þar sem félagsfólk getur komið áleiðis upplýsingum um þetta. Samstöðin fylgist með og uppfærir listann yfir fyrirtækin reglulega, hvort þau ætli að taka þátt í verkbanninu eða ekki. Sjá hér: Efling með lista yfir fyrirtæki sem ekki taka þátt í verkbanni

„Samtök atvinnulífsins hafa lagt ótímabundið verkbann á Eflingu. Í því felst hótun um að félagsmenn Eflingar á almenna vinnumarkaðinum verða sviptir launum sínum frá og með fimmtudeginum í næstu viku, 2. mars,“ byrjar Sólveig Anna greinina. „Áhrifamáttur þessarar aðgerðar er mikill af einfaldri ástæðu: fólk sem getur vart lifað af launum sínum getur augljóslega ekki lifað án þeirra. Samtök atvinnulífsins stóla á að það sé auðveldara að svelta fólk sem býr þegar við hungurmörk til hlýðni.

Saga kjarabaráttu sýnir að hinir sterku hafa sjaldnast miklar áhyggjur af velferð þeirra sem minna mega sín. Ákvörðun Samtaka atvinnulífsins um að bregðast við sanngjörnum kröfum láglaunafólks um launahækkanir með því að svipta það lífsviðurværi sínu sýnir að þetta hefur ekki breyst.

Saga kjarabaráttu sýnir líka að ofbeldi má aldrei mæta með uppgjöf. Friður sem varir aðeins svo lengi sem hinn sterki fær öllu sínu framgengt er ekki friður, heldur ógnarstjórn. Það er það sem verkbann Samtaka atvinnulífsins á Eflingu snýst raunverulega um. Það snýst ekki um þær hóflegu hækkanir lægstu launa sem Efling hefur krafist heldur um það að sýna Eflingu – og um leið öðrum stéttarfélögum og stjórnvöldum – hver það er sem ræður á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku samfélagi. Með því að taka lífsviðurværið af 20.000 fjölskyldum ætla Samtök atvinnulífsins að sýna hverjir það eru sem halda um tauma ógnarstjórnar á íslenskum vinnumarkaði.

Sem betur fer hafa fjölmargir atvinnurekendur þegar lýst því yfir við starfsfólk að þeir muni ekki taka þátt í verkbanninu. Engu að síður reyna Samtök atvinnulífsins að spila sig sem einræðisherra hins íslenska vinnumarkaðar, og láta sem að öllum – jafnvel atvinnurekendum sem ekki eru félagar í SA – sé skylt að framfylgja gerræðislegum hótunum þeirra.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí