Engar lausnir fyrir leigjendur í grænbók um húsnæðismál

Engar lausnir eru fyrir leigjendur í grænbók um húsnæðismál sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur lagt inn í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er bent á að húsnæðiskostnaður leigjenda hafi hækkað og sé að meðaltali yfir hættumörkum OECD, þ.e. að leigjendur séu með að meðaltali með húsnæðiskostnað yfir hættumörkum. En engar tillögur koma fram til úrbóta. Aðeins er vísað til nefndar sem á að skoða málin.

Í grænbókinni kemur fram að húsnæðiskostnaður hefur vaxið að undanförnu. Frá 2019 jókst húsnæðiskostnaður úr 40% að meðaltali en hann er nú 45%. Í bókinni kemur fram að OECD miði við að húsnæðiskostnaður sé íþyngjandi þegar hann fer yfir 40% af tekjum. Víða eru þessi viðmið reyndar lægri. En samkvæmt þessu búa leigjendur að meðaltali við húsnæðiskostnað sem er vel yfir hættumörkum. Það segir sig sjálft að meirihluti þeirra býr við húsnæðiskostnað langt umfram hættumörk.

Það kemur líka fram að húsnæðisöryggi minnkar. 70,6% leigjenda töldu sig búa við húsnæðisöryggi 2020, á hápunkti cóvid. Nú er þetta hlutfall fallið niður í 65,1%. Ástæðan er að þær ferðamannaíbúðir sem komu inn á almennan leigumarkað á tímum cóvid eru horfnar og óöryggi leigjenda minnkar.

Í grænbókinni er graf sem sýnir íþyngjandi húsnæðiskostnað frá 2006 til 2021 eftir stöðu á húsnæðismarkaði.

Þetta er matfólksins sjálfs, það er ekki byggt á viðmiðun OECD né neinu slíku. Þarna sést að eftir Hrun skyldi á milli. 2006 er ekki mikill munur á leigjendum og kaupendum, um 16-18% fólks telur sig búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Við braskvæðingu leiguhúsnæðis eftir Hrun versnar staða leigjenda. 2015 segist þriðjungur leigjenda búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað á meðan hlutfall kaupenda er komið undir 10%. Og 2021, meðan áhrif cóvid á leigumarkaðinn voru enn mildandi, voru hlutföllin 22% hjá leigjendum en 9% hjá kaupendum.

Eins og fram kemur í skýrslunni versnaði staða leigjenda. Og hluta kaupenda, en vaxtahækkanir Seðlabankans hafa skrúfað upp húsnæðiskostnað hjá hluta kaupenda.

En þrátt fyrir að í grænbókinni komi fram skýrt að leigjendur eru fórnarlömb vondrar húsnæðisstefnu síðustu ára er ekkert minnst á lausnir þeim til handa í þessari grænbók. Þar eru lausnir fyrir íbúðaeigendur en ekki fyrir leigjendur þótt um 100 þúsund manns búi í leiguhúsnæði.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí