Fasteignafélag kaupir þvottastöð

Blackstone, sem er eitt stærsta fasteignafélag í heimi hefur fest kaup á hinum alræmda Luminor banka í Eistlandi. Blackstone hefur herjað á evrópska markaði undanfarin áratug með því að kaupa upp innviði og hundruð þúsunda heimila í Evrópu og hefur þannig vakið ugg margra þjóða. Hinsvegar var Luminor bankinn sjálfur í hringiðu peningaþvættis Danske Bank og annarra norrænna banka sem sem skók heimsbyggðina og fjallað var um rétt fyrir áramót.

Málið er eitt stærsta peningaþvættismál sem upp hefur komið, því samkvæmt ákæruskjalinu er talið að bankinn hafi þvegið um þrjúhundruð og þrjátíu milljarða króna á stuttu tímabili fram til ársins 2018. Þurfti Danske Bank að greiða þrjú hundruð milljarða króna sekt fyrir sinn hlut í peningaþvættinu, hinir tveir norrænu bankarnir, Nordea og DnB fengu lægri sektir en öllum bönkunum var gefið að sök að hafa staðið fyrir glæpnum.

Blackstone sem átti stóran hlut í Luminor ásamt norrænu bönkunum áður en ósköpin dundu yfir hefur núna keypt þá alla út. Hefur Blackstone þannig eignast áttatíu prósent og ræður eitt yfir starfsemi bankans í Tallin, höfuðborg Eistlands.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fasteignarisinn er viðriðinn peningaþvætti og vafasama viðskiptahætti. Nýlega missti félagið leyfi til að reka spilavíti í Ástralíu eftir að upp komst um umsvifamikið peningaþvætti þess og tengsl við glæpasamtök. Blackstone hefur líka vakið reiði ítalskra saksóknara sem rannsakað hafa tryggingafélag í eigu þess. Talið er að tryggingafélagið Lombard International sem er staðsett í Luxembourg og sérhæfir sig í tryggingu auðs, hafi verið notað sem þvottastöð og komið áttatíu milljörðum króna undan.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí