Feminískar fréttir: Foreldrastyrkir og heiðursmorð

Foreldrastyrkir í meðferð borgarráðs
Reykjavíkurborg samþykkti í vikunni að senda tillögu sjálfstæðisflokksins um foreldrastyrki til meðferðar borgarráðs. Tillagan var samþykkt með 22 atkvæðum gegn einu mótatkvæði en það var atkvæði greitt af Líf Magneudóttur úr VG.

Tillagan var svohljóðandi:

Borgarstjórn samþykkir að greiða foreldrastyrk að fjárhæð 200.000 kr. mánaðarlega til þeirra foreldra sem annað hvort þurfa eða kjósa að vera heima með börnin sín að fæðingarorlofi loknu, frá 12 mánaða aldri til allt að tveggja ára aldurs.

Nokkrar umræður sköpuðust um málið sem hefur gjarnan þótt heitt mál þegar kemur að jöfnum hlut kynjanna á vinnumarkaði. Andrea Helgadóttir formaður borgarstjórnarflokks Sósíalista segir að þar sem staðan í dag er sú að aðeins 11% barna innan 18 mánaða hafi hlotið leikskólapláss í Reykjavík sé augljóst að einhver er nú þegar heima með barnið launalaus.

Tölvuleikur fyrir karla sem hata konur

Bjarki Þór Grönfeldt stjórnmálafræðingur er um þessar mundir ásamt fleirum við Háskólanna á Bifröst að þróa tölvuleik sem á að þjálfa gagnrýna hugsun og sporna gegn svokallaðri incel-hreyfingu. Þekkt er orðið að ofbeldisglæpir og hryðjuverk séu framin í nafni Incel en hreyfingin byggir á öfgahægri skoðunum, rasisma og kvenfyrirlitningu.

Incel hreyfingin sem þrífst helst á veraldarvefnum stendur fyrir Involuntary Celibacy eða þvingað skírlífi. Upphaflega var það ungur háskólanemi úr háskólanum í Toronto að nafni Alana sem stofnaði vefsíðu undir titlinum þvingað skírlífi árið 1990 en þar tjáði ungt fólk sig um ýmsar ástæður þess að það næði ekki líkamlegu eða rómantísku samlífi með öðrum. Á þeim tíma tengdist umræðan ekki pólitík né var hún bundin við kyn en smám saman fór að verða til hreyfing eða svokallaður “subculture” á veraldarvefnum sem tengdist síðum eins 4chan og Reddit og voru beintengd öfga hægri skoðunum undir titlinum Incel.

Inselar upplifa sig sem mikil fórnarlömb fyrir það að njóta ekki kynlífs og kalla kynlífsskortinn eða hið þvingaða sýrlífi jafnvel öfuga nauðgun. Oftast eru þetta ungir menn með lélega sjálfsmynd sem leita svara við tilvistarkreppu sinni á netinu og svörin sem þeir finna eru yfirleitt fólgin í því að vandamálið séu konur. Það er konum og femínisma að kenna að þeir fá ekki lifað kynlífi og samsæriskenningarnar halda svo áfram að grassera með ofbeldisfullum viðhorfum til nútímans. Þeir líta á nútímasamfélag og femínisma sem samsæri gegn sér og sínu kyni.

Þá þekkjast dæmi þess að inselar endi á því að fremja ofbeldisfullan verknað og jafnvel fjöldamorð en nokkrar hryðjuverkaárásir í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa verið framkvæmdar af einstaklingum sem vísa í hugmyndafræðina um Incel. Elliot Rodgers var einn þeirra en hann drap sex manns í Santa Barbara árið 2014 og sagði morðin vera hefnd gegn mannkyninu sökum þess að vera hafnað af konum. Hann sendi frá sér langa yfirlýsingu á Youtube sem aðrir ofbeldismenn svo sem Alec Minassian hafa vísað í en Alec myrti 11 manns og særði 15 í Toronto árið 2018.

Incel sem er einnig hluti af því sem hefur verið kallað mannhvelið, eða manosphere, er samansafn af nokkrum róttækum kvenhaturshreyfingum á netinu. Meðal þeirra eru menn eins Andrew Tate og Jordan Peterson sem dæla allskonar hatursfullum hugmyndum í unga menn.

Bjarki segir í viðtali við fréttastofuna að inselar séu oft einstaklingar sem uppfylli allar sínar þarfir gegnum netið, hvort sem það sé félagsleg samskipti, frami eða þörf fyrir nánd, sem þeir uppfylla í gegnum klám áhorf.

Hann segir það vera vandamél ef fólk reyni að fá allar sínar félagslegu þarfir uppfylltar á netinu.  Þá sé það vandamál ef að öll þörf fyrir nánd er uppfyllt í gegnum klám.  Það eitt og sér sé rautt flagg.

Bjarki segir það hafa gefist vel að nota tölvuleiki til að sporna gegn trú á samsæriskenningar og því sé áhugavert að reyna að fara sömu leið með incel. Hann segir að þar sem trú á samsæriskenningar um konur séu svona veigamiklar í incel-hugmyndum, þá sé upplagt að líta í þá smiðju og hanna inngrip sem byggir á því.


Ein kynfæri stúlku limlest á 15 sekúndna fresti

Sjötti febrúar er alþjóðlegur dagur gegn limlestingu á kynfærum kvenna og Sameinuðu þjóðirnar segjast stefna að því að þessum aðgerðum verði útrýmt fyrir árið 2030.
Antonio Guterres framkvæmdastjóri þjóðanna hefur biðlað til karlmanna að berjast gegn þessum lífshættulega sið enda sé það allra hagur. Nýverið fór fyrsta lýtaaðgerðin fram á Íslandi sem gekk út á að byggja upp limlest kynfæri konu.

Limlestingar á kynfærum kvenna eru oftast framkvæmdar í löndum vestur-, austur- og norðaustur Afríku, víða í Miðausturlöndum auk þess sem innflytjendur á Vesturlöndum komast upp með slíkar aðgerðir víða. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunun telur limlestingarnar eiga sér stað í flestum löndum heims, en erfitt sé að afla gagna þar sem farið er leynt með framkvæmdina.

Limlestingarnar ganga út á að fjarlægja ytri kynfæri kvenna ýmist að hluta eða að öllu leyti og í sumum tilfellum bæði innri og ytri skapabarma og sníp. Þá eru kynfræin stundum saumuð saman og aðeins skilin eftir nokkurra millimetra rifa fyrir þvaglát og blóð að komast út um. Þetta getur haft þær afleiðingar að konur fái ítrekaðar sýkingar, eigi erfitt með þvaglát, þeim blæði, eigi erfitt með barnsburð og kynlíf auk þess að lifa við stöðuga verki. Talið er að ein af hverjum 3-500 stúlkum deyi sökum þessa. Algengast er að aðgerðirnar séu framkvæmdar á stúlkum fram að fimmtán ára aldri en stundum strax á fyrsta mánuði ævi þeirra.

Á Íslandi búa um hundrað konur frá þeim löndum sem aðgerðirnar eru algengastar í en það eru lönd eins og Sómalía, Gínea, Djíbútí, Malí, Egyptaland, Súdan, Erítrea, Síerra Leóne, Búrkína Fasó og Gambía.

Hannes Sigurjónsson lýtalæknir hefur gert yfir 100 uppbyggingaraðgerðir í Svíþjóð á konum vegna limlestra kynfæra þeirra en nú nýlega gerði hann fyrstu uppbyggingaraðgerðina hér á landi. Hann segir í viðtali við RUV að fleiri aðgerðir séu í bígerð en hann sé í viðræðum við fleiri konur sem komið hafa hingað til lands sem flóttamenn.

Íslensk stjórnvöld hafa áður skuldbundið sig til þess að taka þátt í baráttunni gegn limlestingu á kynfærum kvenna. Með undirritun á samstarfssamningi við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna, og fleiri hjálparsamtaka allt frá árinu 2011.

Talið að á næsta ári verði kynfæri fjögurra milljóna stúlkna limlest og að ein slík limlesting fari fram einhvers staðar í heiminum á 15 sekúndna fresti.


Heiðursmorð og heimilisofbeldi í Írak
Enn berast fréttir af svokölluðum heiðursmorðum en nú nýlega fóru fram mótmæli í Bagdad, höfuðborg Írak, þar sem krafist var harðari löggjafar gegn heimilisofbeldi. Morð föður á dóttur sinni Tiba al-Ali var kveikjan að mótmælunum en morðið er flokkað sem svokallaða heiðursmorð.

Öryggislögregla í Írak kom í veg fyrir mótmælastöðu tuttugu manna hóps fyrir utan aðsetur æðsta dómstóls landsins í Bagdad. Mótmælendur sem mótmæltu heiðursmorðum á konum fengu áheyrn dómsmálanefndar.

Tiba al-Ali sem var tuttugu og tveggja ára gömul, bjó í Tyrklandi ásamt unnusta sínum, en lét lífið af hefndi föður síns þegar hún var nýverið í fríi hjá fjölskyldu sinni í Diwaniyah-héraði í suðurhluta Írak. Tiba al-Ali var þekkt sem YouTube stjarna, með mikinn fjölda fylgjenda sem fékk innsýn í daglegt líf hennar.

Hún var kyrkt af föður sínum þann 31. janúar eftir að lögreglan hafði haft afskipti af fjölskyldunni vegna einhverskonar erja daginn áður. Faðir hennar gaf sig fram við lögreglu og játað á sig morðið umsvifalaust.

Forsaga málsins er talin vera sú að Ali hafi sakað bróður sinn um kynferðislega áreitni og þegar fjölskyldan ferðaðist til Tyrklands árið 2017 ákvað Ali að vera eftir þar í stað þess að halda heim með fjölskyldunni. Hljóðupptökur sem til eru renna stoðum undir þá kenningu.

Um tuttugu manns komu saman fyrir rétt utan við æðsta dómstól landsins í Bagdad í síðustu viku til þess að mótmæla kvennamorðum en mótmælendur héldu á skiltum sem á stóð „Hættið að drepa konur“ og „Morðingi Tibu skal dreginn til ábyrgðar.“

Rose Hamid,22 ára kona sem mótmælti í dag, sagði við fréttamann AFP fréttastofunnar að mótmælendur krefðust úrbóta á lögum til verndar konum í landinu – sérstaklega lögum sem vörðuðu heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi er stórt félagslegt vandamál í Írak.

Hanaa Edwar baráttukona fyrir réttindum kvenna fékk þá áheyrn dómsmálanefndar Írak, þar sem hún náði að koma kröfum mótmælenda á framfæri.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí