Framleiðsla á húsnæðismarkaði hrynur

Framleiðni í húsbyggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu hefur dregist saman um þriðjung frá árinu 2020. Það sama gildir um framleiðni miðað við fólksfjölgun fyrir árið 2022, þar vantar þriðjung upp á til að framleiðsla haldist í hendur miðað við fólksfjölgun. Það á enn eftir að vinna upp gat upp á fimm til átta þúsundir íbúðir sem vantaði inn á húsnæðismarkaðinn vorið 2019. Ef fram fer sem horfir verður einungis byggt um þrjátíu prósent af húsnæðisátaki stjórnvalda í ár.

Húsnæðisátök stjórnvalda virðast framkalla hrun í framleiðni á húsnæðismarkaði. Það er því í hæsta máta undarlegt að þau skuli ítrekuð sett á laggirnar sem lausn á húsnæðisvandanum. Árið 2016 var byggingareglugerð einfölduð með það að markmiði að lækka byggingakostnað sem átti að framkalla stóraukna framleiðslu. Það þveröfuga átti sér stað því framleiðsla á húsnæði dróst saman um heil níu prósent á milla ára í kjölfarið.

Það sama virðist ætla að vera raunin með húsnæðisátök innviðaráðherra sem hafa verið kynnt til sögunnar í þrígang frá árinu 2019. Fyrst í tenglsum við lífskjarasamningana, síðar eftir niðurstöður átakshóps Þjóðahagsráðs og kynnt í byrjun október 2022 og nú síðast með undirritun hans og borgarstjóra Reykjavíkur í ársbyrjun.

Fjöldi íbúða eftir byggingarári: Yfirlit yfir fjölda íbúða í Fasteignaskrá eftir skráðu byggingarári.

Um þessar mundir er húsnæðismarkaðurinn í algeru frosti og það mun þurfa kraftaverk til að koma í veg fyrir að framleiðsla dragist enn meira saman. Á fyrst tveimur mánuðum þessa árs voru hundrað áttatíu og sjö íbúðir fullbúnar á höfuðborgarsvæðinu. Á ársgrundvelli þýðir það framleiðsla upp á rétt rúmlega eitt þúsund og eitt hundrað íbúðir. Það er fjöldi sem getur hýst um tvö þúsund og fimmhundruð einstaklinga. Áætluð fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári er um fimm þúsund og því er framleiðslan einungis fimmtíu prósent af þörfinni. Núverandi stöðnun á húsæðismarkaði á eftir að koma að fullu til áhrifa og því ljóst að útlitið er enn dekkra en þessar tölur segja til um.

Það er ábyrgðarhluti að setja reglulega fram stórkarlalegar áætlanir um framleiðslu á húsnæði þegar engar líkur er á að þær raungerist. Það eru fasteignafélög og byggingaraðilar sem hafa völdin og stjórnvöld nánast gagnlaus í þessu samhengi þrátt fyrir lögbundnar skyldur sínar. Stjórnvöld hafa framselt þessar skyldur í fangið á einkaaðilum og geta ekkert gert nema reyna að auðvelda þeim að græða meira í dag en í gær. Ef það mætir ekki hagnaðarkröfu þeirra þá hætta þeir framleiðslu eins og nú birtist í tölum Húsnæðis og mannvirkjastofnunar.

Það ríkir fullkomið áhrifa- og getuleysi hjá ríkjandi húsnæðisyfirvöldum bæði hjá ríki og sveitarfélögum á suðvestur horninu. Braskarar og valdamikil hagsmunaöfl eiga húsnæðismarkaðinn og skeyta engu um blekið sem ráðamenn sulla úr pennum sínum á skjöl sem eingöngu verða minnisvarðar um sinnu- og ábyrgðarleysið sem umlykur þá.

Ávöxtunarkrafa fjárfesta á húsnæðismarkaði á Íslandi er gríðaleg og hefur vaxið á tímum síðustu ríkisstjórna. Í mörgum tilvikum virðist ávöxtunarkrafa byggingaraðila og fasteignafélaga sé um hundrað prósent ofan á bygginga- og framkvæmdakostnað. Víðast hvar í Evrópu eru viðmiðin frá átján til tuttugu og fimm prósent. Að sama skapi sýna rannsóknir að ef hlutur fjárfesta fer yfir tuttugu prósent af eignarhaldi á húsnæðismarkaði þá hefur það mikil áhrif til hækkunar húsnæðisverðs. Hér á Íslandi var hlutdeild fjárfesta á húsnæðismarkaði fimmtíu og sex prósent. Sem er ein birtingamyndin af lélegu regluverki og sjálftöku á leigumarkaði.

Stjórnvöld hafa þráast við að bæta réttarvernd leigjenda þrátt fyrir að regluverk á leigumarkaði sé það fjórða slakasta af öllum aðildarríkjum OECD. Þau segja að stífara reguverk muni hafa þau áhrif að framleiðsla á húsnæði muni dragast saman. Ef það er raunin þá er vert að minnast orða Snorra goða sem höfð eru eftir honum í Landnámabók „Um hvað reiddust goðin þá, er hér hrann hraunið, er nú stöndum vér á?“

Réttlátu regluverki verður varla kennt um húsnæðisskortinn sem við upplifum núna, kannski miklu fekar er hann vegna þess að það vantar regluverk sem heldur bröskurum og lögleysu frá þessum mikilvægu innviðum, en það tvennt er allsráðandi og á ábyrgð núverandi stjórnvalda.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí