Verkfallsverðir Eflingar töldu sig sjá til starfsfólks Daga við hótel Íslandshótela í gær. Hjá Dögum eru um 750 manns leigðir út til ræstinga og þrifa. Þetta fyrirtæki er í meirihluta í eigu bræðranna Einars og Benedikts Sveinssona, en Benedikt er faðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.
Verkfallsverðirnir telja augljóst að verið sé að brjóta gegn verkfallinu. Foss-hótel er fullt af gestum, eldhús og þvottahús á fullu, og augljóst að það eru fleiri en eigendur og. æðstu stjórnendur sem sjá um þau störf sem Eflingarfólkið sinnti áður.
Það sama gerðist í morgun og í gær. Þegar verkfallsverðir Eflingar mættu á hótelið var þeim meinuð innganga um stund. Fólkið var sannfært um að það væri gert svo að verkfallsbrjótar gætu forðað sér.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sakaði lögmenn Samtaka atvinnulífsins um að liðsinna eigendum og yfirmönnum á hótelum við að stunda verkfallsbrot á Facebook í morgun. Og birti myndband af lögmönnunum á vettvangi.
„Svo mikilvægt finnst þeim að brjóta niður efnahagslega réttlætisbaráttu lægst launaðasta fólksins á íslenskum vinnumarkaði,“ skrifaði Sólveig Anna. „Mikil er skömm þessarar hálaunamanna!“
Hér má sjá póstinn og myndbandið: Facebook-póstur Sólveigar Önnu
Í gær töldu verkfallsverðir sig hafa séð til starfsfólks Daga við hótel Íslandshótela. Það fyrirtæki hét áður ISS og er auk Sólar stærsta ræstingarfyrirtæki landsins. Um 750 manns vinna hjá Dögum og 450 hjá Sólar, samtals 1.200 manns sem ferðast milli fyrirtækja og þrífa án þess að tilheyra starfsmannahópi þeirra. Eigendur þessara fyrirtækja leigja starfsfólkið út og taka til sín hluta af gjaldinu. Ekki ósvipað og þegar bændur sendu vinnumenn sína á sjó fyrr á tíð.
Dagar eru í meirihlutaeign bræðranna Benedikts og Einars Sveinsson, auðmanna úr Garðabæ. Benedikt er faðir Bjarna Benediktssonar og Einar föðurbróðir hans. Myndin er af þeim bræðrum, Benedikt til vinstri.