Samkvæmt samantekt Hagstofunnar á svokallaðri launasummu, það er staðgreiðsluskilum á tekjuskatti, drógust launagreiðslur á mann saman á föstu verðlagi í fyrra. Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi verið nálægt 7% og hagvöxtur á mann líklega um 3,8%. Ástæðan er að laun héldu ekki í við verðbólguna, ávinningur af hagvextinum rann fram hjá launafólki og rann til eigenda fyrirtækja.
Launasumma á mann á föstu verðlagi var aðeins 0,2% hærri í desember í fyrra en í sama mánuði árið á undan. Þrátt fyrir launahækkanir til um 80% launafólks á almennum markaði. Í nóvember hafði launasumman á mann dregist saman um 2,7% frá sama mánuði árið á undan. Ef ekki koma til miklar hækkanir til opinberra starfsmanna og Eflingarfólks eða almennt launaskrið til þeirra sem ekki fá laun samkvæmt taxta, má reikna með að verðgildi launasummunnar rýrni enn frekar á næstu mánuðum, enda verðbólga hér 9,9%.
Þegar þetta gerist, að laun halda ekki í við verðlag og alls ekki í við aukinn hagvöxt, eru það merki þess að fjármagns- og fyrirtækjaeigendur eru að stækka sína sneið á kostnað launafólks. Um þetta eru mörg merki. Fádæma góðæri er í rekstri fyrirtækja, vafasamt er að umsamdar launahækkanir verji laun fyrir mikilli verðbólgu og mörg dæmi eru um að fyrirtæki hækki verð á vöru og þjónustu langt umfram hækkun kostnaðar.
Í cóvid varð mikil tilfærsla auðs til þeirra sem mikið áttu. Á sama tíma voru æ fleiri sem ekki höfðu efni á að kaupa sér húsnæði, hinum eignalausu fjölgaði. Nú bendir margt til að í eftirleik cóvid flytjist ávinningurinn af endurræsingu efnahagslífsins mest til hinna ríku, renni fram hjá launafólki.