Ljóst að sneið launafólks mun minnka mikið 2022-23

Hagdeild Íslandsbanka hefur sent frá sér þjóðhagsspá sem gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti hagkerfisins. Hagdeildin áætlar að hagvöxturinn í fyrra hafi verið 7% og hann verði 3,4% á þessu ári. Þar sem kjarasamningar hingað til hafa aðeins reynt að halda í við verðbólguna en ekki aukna framleiðni má ætla að sneið launafólks minnki umtalsvert á þessum tveimur árum. Og ekki bætir það stöðu launafólks að verðbólgan verður mun meiri í ár en lagt var til grundvallar samningunum.

Þegar gengið er til kjarasamninga eru þrír þættir hafðir til viðmiðunar um almennar launahækkanir.

Einn er verðbólga, bæta þarf launafólki kjaraskerðingu vegna verðbólgu. Ef þessi þáttur er aðeins hafður til viðmiðunar mun hlutur launafólks í framleiðni fyrirtækja minnka hægt og bítandi þar sem eigendur fyrirtækja fengju til sín allan ábata af aukinni framleiðni, hækkun afurðaverðs, hagræðingu vegna tækninýjunga o.s.frv.

Af þeim sökum er líka samið um að launafólk fái ábata af bættum hag fyrirtækja. Um þetta snerist t.d. hagvaxtaraukinn í lífskjarasamningunum. Þá var samið um launahækkanir sem áttu að bæta kjaraskerðingu vegna verðbólgu, miðað við spár, en einnig um sérstakar hækkanir sem voru tengdar hagvexti. Og í fyrri samningum hefur launafólk sótt hækkanir umfram verðlag einmitt af þessum sökum.

Frá ársbyrjun 1989 hefur verðlag hækkað um 401% samkvæmt neysluvísitölu Hagstofunnar. Á sama tíma hefur vísitala launa hækkað um 804%. Laun hafa þá hækkað um 81% umfram verðlag eða um 1,76% á ári að meðaltali. Sem er í takt við vöxt hagvaxtar á mann.

Þegar búið er að taka tillit til fyrsta þáttarins, verðbólgu, verður því að taka tillit til annars þáttar, sem er aukin framleiðni. Ef verðbólga er 10% og framleiðni eykst um 2% þarf því að hækka laun um 12,2% ef hlutur launa í framleiðslunni á ekki að minnka.

Þriðji þátturinn er svo réttlát skipting. Ef við erum sammála um að við lifum í allra besta heimi allra heima þá duga tveir fyrstu þættirnir, verðtrygging og hækkun vegna framleiðni. En ef launafólkið telur sig bera skarðan hlut frá borði þarf það að sækja hækkanir umfram verðlag og aukna framleiðni. Og hinum megin við borðið eru fyrirtækjaeigendur, sem auðvitað vilja stækka sína sneið á kostnað launafólksins.

Þessi þriðji þáttur er hin klassíska stéttabarátta. Hinir tveir eru í raun tæknileg aðferð til að viðhalda óbreyttu ástandi.

Samkvæmt Íslandsbanka var hagvöxtur á síðasta ári 7%. Landsmönnum fjölgaði á árinu um 3,1% svo við getum áætlað að landsframleiðsla á mann hafi aukist um 3,8%. Á næsta ári gerir bankinn ráð fyrir 3,4% hagvexti og ef við gerum ráð fyrir sömu aukningu mannfjöldans og í fyrra að frádregnu flóttafólki frá Úkraínu, má reikna með 2,3% fjölgun landsmanna í ár. Hagvöxtur á mann gæti þá orðið 1,1% á árinu.

Samanlagður hagvöxtur á mann 2022 og 2023 er þá 4,9%. Laun þurfa þá að hækka 4,9% umfram verðlag á þessum tveimur árum.

Verðbólga var 9,6% í fyrra og hagdeild Íslandsbanka spáir að hún verði 7,6% á þessu ári. Til að verja laun fyrir verðbólgunni frá ársbyrjun 2022 fram til ársbyrjunar 2024 þarf því að hækka ráðstöfunartekjur launafólks, það er eftir skatta og gjöld, um 17,9% yfir þessi tvö ár.

Ef við förum með byrjunarlaun 6. launaflokks Starfsgreinasambandsins í þetta ferðalag þá voru þau rúmlega 364 þús. kr. í ársbyrjun 2022. Við hækkum þau fyrst um 4,9% svo launafólk fái sína hlutdeild í 4,9% auknum hagvexti. Launin eru þá komin í 382 þús. kr. Í ársbyrjun 2022 hefði það skilað tæplega 303 þús. kr. í launaumslagið.

Og til að verja þá upphæð fyrir verðbólgunni yfir tveggja ára tímabil þyrftum við að ná þessari upphæð í tæplega 357 þús. kr. Miðað við skatthlutföllin í dag þarf að ná launataxtanum upp í 460 þús. kr.

Samkvæmt samningum Starfsgreinasambandsins er þessi taxti í dag 417.148 kr. Það vantar því tæplega 43 þús. kr. upp á að taxtinn verji launafólk fyrir verðbólgu yfir þessi tvö ár og tryggi hlutdeild þeirra í aukinni framleiðni. Og það þrátt fyrir að inn í hækkuninni séu 23.500 kr. hagvaxtarauki samkvæmt lífskjarasamningnum, þar sem 10.500 kr. tilheyra hagvexti 2021 og ætti því í raun að vera utan þessa útreiknings. Ef við fellum hann burt vantar launafólkinu á 6. taxta Starfsgreinasambandsins 53 þús. kr. við endann á yfirstandandi samningum. Ef við færum þessa upphæð yfir á launakröfu þá væri hún krafa um 12,7% launahækkun.

Það er, ef spá Íslandsbanka gengur eftir.

Vert er að hafa í huga að tímabilið byrjar þegar síðasta launahækkun lífskjarasamningsins tók gildi en endar við lok skammtímasamnings Starfsgreinasambandsins. Munurinn er hins vegar svo mikill að það raskar heildarmyndinni ekki mikið.

Það sem nýbirt þjóðhagsspá Íslandsbanka sýnir svo vel er að forsendur skammtímasamningsins eru að bresta. Í fyrsta lagi vegna þess að verðbólguspáin til grundvallar samningnum var 8,2% í fyrra og 5,6% á þessu ári, samanlagt 14,3%, þegar samanlögð verðbólga samkvæmt þjóðhagsspá Íslandsbanka er 17,9%. Munurinn er 3,6%, tap upp á 12 þús. kr. sé miðað við ráðstöfunarfé fólks í 6. launaflokki.

Og aukin verðbólga mun að öllum líkindum leiða til hækkunar stýrivaxta, sem var einmitt það sem skammtímasamningarnir áttu á forða okkur frá.

En það sem mestu skiptir er að skammtímasamningurinn felldi í raun hagvaxtaraukann, sem var byggður á aukinni framleiðni, inn í verðtrygginguna svo launafólkið fékk ekki sinn hlut í góðærinu og auknum hagvexti. Sem var gríðarmikill í fyrra og verður líka mikill í ár.

Skammtímasamningarnir voru sagður upptaktur af langtímasamningi í anda lífskjarasamningana. Ljúka á nýjum samningunum fyrir lok janúar á næsta ári. Eins og fram kemur hér að ofan mun lágmarkskrafan þar verða tæplega 13% hækkun ef spá Íslandsbanka gengur eftir. Og þá á eftir að bæta ofan á verðtryggingu til næstu ára og hlutdeildar í hagvexti komandi ára. Og svo munu einhver félög vilja stækka hlut launafólks og minnka ofsagróða eigenda fyrirtækja. Sem í mörgum tilfellum byggir á að því að þeir greiða starfsfólki sínu skammarlega lág laun.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí