Samninganefnd Eflingar hefur boðað verkföll á öllum hótelum á höfuðborgarsvæðinu, hjá öllum ræstingarfyrirtækjum og öryggisgæslufyrirtækjum. Verkföllin eiga að hefjast á hádegi þriðjudaginn 28. febrúar. Atkvæðagreiðsla um verkföllin hefst á fimmtudaginn og líkur á mánudaginn í næstu viku.
Til viðbótar við áður samþykktar núgildandi vinnustöðvanir á hótelum Íslandshótela og Berjaya Hotels nær vinnustöðvun þessi m.a. til þeirra starfa sem unnin eru samkvæmt kjarasamningi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á starfsstöðvum Miðbæjarhótel/Centerhotels, Keahotels á félagssvæði Eflingar sem og til allra annarra hótela og gistihúsa á félagssvæði Eflingar.
Áætlaður fjöldi þeirra sem færu í verkfall á hótelunum eru um sex hundrað manns. Með þessari vinnustöðvun yrðu öll störf undir kjarasamningum Eflingar á hótelum komin í verkfall.
Einnig er boðuð vinnustöðvun sem nær til allrar vinnu við ræstingastörf hjá ræstingafyrirtækjum sem unnin er skv. aðalkjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Grunur er um að starfsfólk ræstingafyrirtækja hafi sinnt ræstingu á Íslandshótelum, svo verkfall starfsfólk þeirra ætti að girða fyrir frekari verkfallsbrot.
Stærstu ræstingarfyrirtækin eru Dagar, sem er í eigu ættingja Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, og Sólar. Önnur fyrirtæki sem verkfallið mun ná til eru: AÞ-Þrif, Ræstitækni, Hreint, Hreinsitækni, iClean, Nýþrif, Nostra ræstingar og Eignaþrif. Áætlaður fjöldi á kjörskrá er um 650 manns.
Þá er boðun vinnustöðvun sem nær til allrar vinnu hjá öryggisgæslufyrirtækjum sem unnin er skv. aðalkjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Starfsmenn öryggisfyrirtækja hafa aðstoðað stjórnendur Íslandshótela við að halda verkfallsvörðum Eflingar frá því að sinna hlutverki sínu.
Þau fyrirtæki sem nefnd eru í verkfallsboðun eru Securitas, Öryggismiðstöð Íslands, 115 Security og Top Guard. Um er að ræða um fjögur hundruð manns. Bíll frá Top Guard var fyrir utan Foss-hótel þegar stjórnendur þar meinuðu Eflingarfólki að stunda verkfallsvörslu.
Vinnustöðvunin er ótímabundin ef samþykkt af félagsfólki og hefst klukkan 12:00 á hádegi þriðjudaginn 28. febrúar
2023 nema kjarasamningar hafi tekist eða vinnustöðvun verið frestað fyrir þann tíma.
Atkvæðagreiðslan hefst á fimmtudaginn og verður lokið kl. 18 mánudaginn 20. febrúar. Verkfall er samþykkt ef kosningaþátttaka er 20% eða meiri og meirihluti þeirra sem kjósa samþykkja verkfall.