Næstu verkföll: Öll hótel, ræstingarfyrirtæki og öryggisgæsla

Samninganefnd Eflingar hefur boðað verkföll á öllum hótelum á höfuðborgarsvæðinu, hjá öllum ræstingarfyrirtækjum og öryggisgæslufyrirtækjum. Verkföllin eiga að hefjast á hádegi þriðjudaginn 28. febrúar. Atkvæðagreiðsla um verkföllin hefst á fimmtudaginn og líkur á mánudaginn í næstu viku.

Til viðbótar við áður samþykktar núgildandi vinnustöðvanir á hótelum Íslandshótela og Berjaya Hotels nær vinnustöðvun þessi m.a. til þeirra starfa sem unnin eru samkvæmt kjarasamningi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á starfsstöðvum Miðbæjarhótel/Centerhotels, Keahotels á félagssvæði Eflingar sem og til allra annarra hótela og gistihúsa á félagssvæði Eflingar.

Áætlaður fjöldi þeirra sem færu í verkfall á hótelunum eru um sex hundrað manns. Með þessari vinnustöðvun yrðu öll störf undir kjarasamningum Eflingar á hótelum komin í verkfall.

Einnig er boðuð vinnustöðvun sem nær til allrar vinnu við ræstingastörf hjá ræstingafyrirtækjum sem unnin er skv. aðalkjarasamningi Sam­taka atvinnulífsins og Eflingar. Grunur er um að starfsfólk ræstingafyrirtækja hafi sinnt ræstingu á Íslandshótelum, svo verkfall starfsfólk þeirra ætti að girða fyrir frekari verkfallsbrot.

Stærstu ræstingarfyrirtækin eru Dagar, sem er í eigu ættingja Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, og Sólar. Önnur fyrirtæki sem verkfallið mun ná til eru: AÞ-Þrif, Ræstitækni, Hreint, Hreinsitækni, iClean, Nýþrif, Nostra ræstingar og Eignaþrif. Áætlaður fjöldi á kjörskrá er um 650 manns.

Þá er boðun vinnustöðvun sem nær til allrar vinnu hjá öryggisgæslufyrirtækjum sem unnin er skv. aðalkjarasamningi Sam­taka atvinnulífsins og Eflingar. Starfsmenn öryggisfyrirtækja hafa aðstoðað stjórnendur Íslandshótela við að halda verkfallsvörðum Eflingar frá því að sinna hlutverki sínu.

Þau fyrirtæki sem nefnd eru í verkfallsboðun eru Securitas, Öryggismiðstöð Íslands, 115 Security og Top Guard. Um er að ræða um fjögur hundruð manns. Bíll frá Top Guard var fyrir utan Foss-hótel þegar stjórnendur þar meinuðu Eflingarfólki að stunda verkfallsvörslu.

Vinnustöðvunin er ótímabundin ef samþykkt af félagsfólki og hefst klukkan 12:00 á hádegi þriðjudaginn 28. febrúar
2023 nema kjarasamningar hafi tekist eða vinnustöðvun verið frestað fyrir þann tíma.

Atkvæðagreiðslan hefst á fimmtudaginn og verður lokið kl. 18 mánudaginn 20. febrúar. Verkfall er samþykkt ef kosningaþátttaka er 20% eða meiri og meirihluti þeirra sem kjósa samþykkja verkfall.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí