Óljóst hvort löglega hafi verið boðað til verkbanns

Efling hefur þann kost að kæra verkbann Samtaka atvinnulífsins til félagsdóms og fyrir því væru gildar ástæður, bæði varðandi hvernig staðið var að atkvæðagreiðslunni og hver yfirlýstur tilgangurinn verkbannsins er. Hvort tveggja orkar tvímælis. En Efling gæti líka sleppt því að kæra verkbannið og látið SA sitja uppi með það. Fylgst svo með hvort fyrirtækjaeigendur ætli í raun að lama eigin reksturinn og taka á sig stórfellt tap.

Eitt af því sem orkar tvímælis við verkbannið er hvort Samtök atvinnulífsins hafi yfir höfuð heimild til að boða til verkbanns. SA eru heildarsamtök og Alþýðusambandið getur t.d. ekki boðað verkföll. Ekki heldur Starfsgreinasambandið. Það eru bara einstök verkalýðsfélög sem geta boðað til verkfalla og þau geta ekki framselt því valdi til heildarsamtaka, öfugt við samningsumboð.

Það eru því líkur á að félagsdómur úrskurði að SA hafi ekki neina verkbannsheimild. Ef fyrirtækjaeigendur vilji setja á verkbann verði ákvörðunin að vera tekin nær þeim sem munu bera kostnaðinn. Í smærri samtökum fyrirtækja, sem Samtök atvinnulífsins eru samsett úr, eða jafnvel í hverju fyrirtæki fyrir sig, þ.e. af stjórnum hvers fyrirtækis.

Annað álitamál er hvort atkvæðagreiðslan hafi verið lögleg. Öll fyrirtæki með aðild að SA tóku eða gátu tekið þátt. Atkvæðamagn innan SA miðast við félagsgjöld sem aftur miðast við launagreiðslur. Þarna greiddu því atkvæði félög með enga Eflinarstarfsmenn og sum þeirra höfðu gífurlegt vægi í atkvæðagreiðslunni vegna umfangs.

Það er t.d. ekki margt Eflingarfólk sem vinnur hjá bönkunum, fátt hjá Marel og Icelandair, ekkert hjá Alcoa eða Rio Tinto, ekkert hjá Samherja, Ísfélaginu eða Síldarvinnslunni, svo fáein stórfyrirtæki séu nefnd. Við atkvæðagreiðslu um verkfall kjósa þau ein sem eru að fara í verkfall. Það er því hæpið að fyrirtæki sem ekki hafa neinn Eflingarstarfsmann í vinnu hafi atkvæðarétt í kosningu um verkbann á Eflingarfólk.

Svo er það tilgangur aðgerðanna. Sem miðað við mörg og löng viðtöl við Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins að undanförnu er óljós og nokkuð á reiki.

Þegar kosningin stóð yfir lýsti Halldór því yfir að tilgangurinn væri að stöðva verkalýðsbaráttu Eflingar, sem hefði farið í of mörg verkföll á undanförnum árum. Halldór Benjamín virtist ganga út frá því að Efling yrði að borga öllu félagsfólki í Eflingu fullar bætur og verkfallssjóðurinn myndi því tæmast fljótt. Sem myndi gera félaginu erfitt fyrir í komandi kjaraviðræðum að fara í eða hóta verkföllum.

Þegar úrslitin voru kynnt sagði Halldór Benjamín að verkbannið væri þrýstingur á stjórnvöld til að grípa inn í deiluna.

Hvorugt af þessu er lögmæt markmið verkbanns. Því má aðeins beita sem þrýstingi til að fá samningsaðila að borðinu. Og það er ekki að heyra á Halldóri Benjamín að hann hafi nokkra trú á að slíkt gerist né að það hefði nokkuð upp á sig. Hann lætur sem hann sé að fara í verkbann vegna þess að það sé ekki hægt að semja við Eflingu.

Efling getur því kært verkbannsboðunina til félagsdóms og fært fyrir því góð rök að hún sé framsett af aðila sem hafi ekki til þess umboð og að atkvæðagreiðslan standist ekki lög né tilgangur verkbannsins.

En Efling gæti líka kosið að kæra ekki. Látið SA sitja uppi með boðað verkbann. Með því að afturkalla boðuð verkföll sem áttu að hefjast tveimur sólarhingum fyrir boðað verkbann er Efling að stíga skref í þessa átt. Að kanna hvort ekki sé best að láta Halldór Benjamín og Samtök atvinnulífsins sitja uppi með verkbannið. Það má nefnilega búast við að flótti bresti á fyrirtækjaeigendur þegar nær dregur þegar fólk fer að reikna út hver skaðinn verði fyrir hvert fyrirtæki.

Launafólkið í Eflingu fær útborgað daginn áður en að verkbannið á að skella á. Það er því ekki í neinni teljandi krísu fyrstu dagana. En fyrirtækjunum mun strax byrja að blæða, þurfa að senda fólkið sitt heim, tilkynna viðskiptavinum að þau geti ekki þjónustað þá, sjá tekjurnar falla og tap hrannast upp. Hvað ætla fyrirtækin að gera við hitt starfsfólkið þegar brotthvarf Eflingarfólks fer að lama starfsemina? Hvað ætla fyrirtækjaeigendur að segja við kollega sína sem þeir hafa sinnt árum saman með aðföng, ætla þeir að loka þeim fyrirtækjum einnig? Og með hvaða rökum? Að Halldór Benjamín vilji ekki semja við Sólveigu Önnu?

En í þessari klemmu kemur líka fram ágallinn við boðað verkbann, hver boðar það og hverjir kjósa um það. Þau sem verða helst fyrir barðinu á verkfallinu, voru með mikinn minnihluta atkvæða í kosningunni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí