Ísak Jónsson, einn af verkfallsvörðum Eflingar, sagðist við Rauða borðið hafa rekist á starfsfólk merkt Dögum, ræstingafyrirtæki föður og föðurbróður Bjarna Benediktssonar við störf á Hótel Lind við Rauðarárstíg. Starfsfólk Daga gekk í störf sem félagar í Eflingu sinntu fyrir verkfallið, voru með öðrum orðum að fremja verkfallsbrot.
Samstöðinni barst síðan þessi mynd, tekin á Hótel Lind.

Þarna sést að kona sem vann við ræstingar og þrif á hótelinu er í bol merkt Dögum.
Eins og Samstöðin greindi frá í gær kviknuðu strax upp grunsemdir að Íslandshótel hafi ráðið verktaka til að ganga í störf Eflingarfólks sem byrjaði verkfall í hádeginu á mánudaginn. Þeir Ísak og Sæþór Benjamín Randalsson lýstu því í spjalli við Rauða borðið að fyrstu viðbrögð yfirmanna á Íslandshótelum væri ávallt að loka hótelunum og tefja það að verkfallsverðir gætu skoðað starfsemina og gengið úr skugga að engin verkfallsbrot væru framin. Þeir töldu ástæðuna vera sá að verkfallsbrjótar þyrftu að forða sér.
Við verkfallsvörsluna hefur vaknað grunur um víðtæk verkfallsbrot, að eigendur og stjórnendur Íslandshótela hafi skipulagt stórfelld verkfallsbrot. Þess má geta að lífeyrissjóðir, m.a. Gildi sem Eflingarfólk greiðir iðgjöld til, á hlut í Íslandshótelum.
Eins og fram kom hjá Samstöðinni í gær eru Dagar, þrifnaðar- og ræstingarfyrirtæki þar sem um 750 manns eru leigðir út til ræstinga og þrifa. Þetta fyrirtæki er í meirihluta í eigu bræðranna Einars og Benedikts Sveinssona, en Benedikt er faðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Myndin sem hér fylgir er af þeim bræðrum.
Sjá má og heyra viðtalið við Ísak og Sæþór í spilaranum hér að ofan.