SA getur sett fyrirtæki í viðskiptabann sem ekki hlýta verkbanni

„Ef einhver utan samtakanna vinnur beinlínis gegn hagsmunum félagsmanna sem eiga í vinnustöðvun er öðrum félagsmönnum óheimilt að eiga viðskipti við hann meðan á vinnustöðvuninni stendur,“ stendur í samþykktum Samtaka atvinnulífsins. Með öðrum orðum getur stjórn SA sett viðskiptabann á þau fyrirtæki sem ekki hlýta verkbanni, hvort sem þau fyrirtæki eru aðilar að SA eða ekki.

Og það sem meira er, SA getur látið þetta viðskiptabann gilda lengur en verkbannið. Í samþykktunum segir: „Framkvæmdastjórn SA getur samþykkt að sama skuli einnig gilda eftir að vinnustöðvun er lokið, annað hvort um tiltekinn tíma eða þar til framkvæmdastjórnin afléttir slíku viðskiptabanni.“

Ef veitingastaður sem ekki er hluti af SA sendir ekki starfsfólkið sem tilheyrir Eflingu heim getur framkvæmdastjórn SA bannað öllum fyrirtækjum að eiga viðskipti við þennan veitingastað, bannað birgjum að selja staðnum matvæli. Og það sem meira er, þetta bann getur varið lengur en verkbannið, eins lengi og framkvæmdastjórn SA telur þurfa.

Það hefur ekki reynt á þetta áður, en mun eflaust gerast ef af verkbanninu verður. Það eru engar líkur til þess að stjórnendur allra fyrirtækja hlýði boði SA. Þá mun koma í ljós hvort framkvæmdastjórn SA ætlar að beita þessum ákvæðum samþykkta félagsins. Og ef það verður gert, munu dómstólar örugglega fá það til meðferðar hvort heimild til viðskiptabanns í samþykktum SA standist lög í landinu.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí