Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara aldrei hafa sýnt kröfum Eflingar neinn áhuga og ekki hafa sett sig inn í þær af neinni dýft. Það hafi komið fram á fundum sem hann stjórnaði og líka þegar hann tilkynnti Sólveigu Önnu að hann hygðist leggja fram miðlunartillögu sem var óbreytt krafa Samtaka atvinnulífsins og án nokkurrar vísunar til krafna Eflingar.
Sólveig Anna fór yfir stöðuna við Rauða borðið. Þar lýsti hún hvernig stéttabaráttu Eflingarfélaga hefur verið mætt af stjórnvöldum. Þau viðbrögð bera með sér að valdastéttin hafi trúað að róttæk verkalýðsbarátta tilheyrði liðinni tíð, að við værum komin inn í tímabil þar sem verkalýðsstéttin sætti sig þegjandi við það sem að henni væri rétt. Þegar Eflingarfólk rís upp og hefur baráttu fyrir að eiga í sig og á er látið eins og með því sé verið að grafa undan samfélaginu, rjúfa einhvern sáttmála. En það er sáttmáli sem láglaunafólk hefur aldrei gengist undir.
Sólveig Anna heldur því fram að staða verkafólks sé lakari í dag en áður. Kjör þess hafi versnað, það er fast á leigumarkaði sem grefur undan lífskjörum þess og það er valdalausara. Um helmingur Eflingarfélaga er ekki með atkvæðarétt í þingkosningum. Sólveig Anna segir að það liti afstöðu stjórnvalda og stjórnmálanna til hópsins. Valdafólk telur sig ekki þurfa að taka tillit til verkafólks.
Og valdafólk sé blint á lífskjör verkafólks, þekki ekkert til þeirra. Samt telur allskonar fólk sig geta túlkað vilja láglaunafólks og þarfir, jafnvel að það vilji heyja kjarabaráttu sína allt öðru vísi en samninganefnd Eflingar. Geri sér jafnvel í hugarlund að Eflingarfólk sé viljalaust og fylgi Sólveigu Önnu í blindni. Þetta lýsir vel afstöðu valdafólks til verkafólks. Það þekkir ekki kjarabaráttu þess þótt það standi frammi fyrir henni. Það trúir ekki eigin augum en ímyndar sér alls konar vitleysu.
Kjarabarátta Eflingar byggir á breiðri og sterkri samstöðu stórs hóps sem tekur virkan þátt í öllum aðgerðum og ákvörðunum. Efling birtir reglulega myndir af hópnum til að minna á þetta. En það virðist ekki slá á hugmyndir valdafólks um hvað Efling er.
Þetta er helsti vandi Eflingar. Fullkomið skilningsleysi viðsemjenda og stjórnvalda um hvað deilan snýst. Og miðlunartillaga ríkissáttasemjara ber þessu merki. Hún er tilraun til að svifta verkafólk samningsrétti sínum, mikilvægum réttindum. Ekki vegna þess að framundan sé stórkostleg efnahagsleg vá heldur vegna þess að sáttasemjari vill einfaldlega berja niður verkalýðsbaráttu láglaunafólks, eins og hún sé ógn í sjálfu sér.
Sólveig Anna benti á þetta þegar hún er spurð um fullyrðinga andstæðinga hennar um að hún vilji ekki semja heldur kollvarpa þjóðskipulaginu. Hún bendir á að Efling hafi skrifað undir marga samninga á undanförnum árum. En andstæðingar félagsins nú vilji hins vegar kollvarpa réttindum verkafólks og afnema samningsréttinn. Það sé því ekki Efling sem sé kollvarpa leikreglum samfélagsins heldur ríkissáttasemjari og valdafólk sem vill kæfa stéttabaráttu láglaunafólks.
Í samtalinu fór Sólveig Anna yfir stöðuna, bæði hvaða öfl eigast við í deilunni en líka einstök atriði hennar. Til dæmis þá spennu sem tímamörk setja í þessa deilu. Verkföll byrja í næstu viku og verða líklega enn víðtækari í vikunni þar á eftir. Enn er stefnt á skammtímasamning, sem ekki myndi gilda lengur en út janúar á næsta ári. Þessi skammi tími skapar mikinn þrýsting, það þurfa að koma til kauphækkanir sem réttlæta kostnað launafólksins við verkföllin og þær þurfa að vera því hærri sem samningstíminn er skemmri. Kostnaður fyrirtækjaeigenda við að leysa deiluna vex því með hverri viku.
Heyra má og sjá viðtalið við Sólveigu Önnu í spilaranum hér að ofan.