Skrældu Símann að innan og vilja nú leiðandi stöðu í Íslandsbanka

Kvika banki hefur sent ósk um sameiningaviðræður til stjórnar Íslandsbanka. Stoðir er leiðandi hluthafi í Kviku. Það er félag byggt á gömlum ættarauð og hópi karla sem tengdust FL-Group fyrir Hrun, en FL átti stóran hlut í Glitni, forvera Íslandsbanka. Stoðir er stærsti hluthafi Símans og hafði forystu um að skræla það félag að innan og færa sem mest verðmæti til hluthafa. Það sama hefur félagið gert í Arion banka.

Kvika hefur á undanförnum árum safnað undir sig flestum vísum af bankastarfsemi utan stóru bankanna þriggja. Kvika varð til við sameiningu Straums og MP-banka og síðar rann Virðing inn í Kviku, eftir að hafa sameinast Auði Capital. Og síðan tók Kvika yfir Gamma eftir að búið var að reka þann hrægammasjóð í strand. Þegar búið var að sópa þessum smábönkum saman keypti Kvika ráðandi hlut í tryggingafélaginu TM (áður Tryggingamiðstöðin) og fjármögnunarfyrirtækið Lykil (áður Lýsing) og sameinaði þessi félög inn í Kviku.

Stærðarhlutföll bankanna miðað við markaðsvirði hlutafjár.

Hlutabréf Kviku voru við lokun markaða í dag metin á tæplega 92 milljarða króna. Hlutabréf Íslandsbanka voru metin á 234 milljarða króna. Samanlagt er virði félagana 326 milljarðar króna. Það eru tvö félög verðmeiri en þetta í kauphöllinni, Alvotech upp á 474 milljarða króna og Marel á 424 milljarða króna. Hlutabréf í Arionbanka eru metin á 227 milljarða króna.

En markmiðið verður ekki að halda uppi markaðsvirði hins sameinaða bankans heldur að greiða eigendum út eignir hans. Það er reyndar planið hjá Íslandsbanka í dag, að fara sömu leið og Arionbanki hefur gert, að draga úr útlánum og minnka umfang ef með því er hægt að færa eigendum meiri fé með útgreiðslu arða og kaupum á eigin bréfum. En ráðandi hluthafar í Kviku munu vilja herða þetta plan, nýta ógnargróða bankans og sterka eiginfjárstöðu til að færa sem mest af fjármunum úr bankanum og til eigenda hlutabréfanna.

Leiðandi í að skræla fyrirtæki að innan

Stoðir eru stærsti eigandinn í Arionbanka á eftir stóru lífeyrissjóðunum þremur, Gildi, LSR og Lífeyrissjóði verslunarmanna, með 5,2% hlut. Í reynd eiga Stoðir 5,5% hlut þar sem Arion á í sjálfum sér og Kvika á í Arion. Þessi hlutur er um 12,5 milljarða króna virði. Þar sem lífeyrissjóðir eru yfirleitt hljóðir eigendur láta þeir stærstu einkafjárfestunum eftir að móta stefnuna í fyrirtækjum þótt sjóðirnir eigi meirihluta hlutafjár, jafnvel yfirgnæfandi meirihluta. Lífeyrissjóðirnir eru þannig einskonar hjálpartæki kapítalista í business og eiginlega miklu fremur en eftirlaunasjóðir almennings. Enda hafa sjóðirnir tapað stjarnfræðilega miklu fé eftir að hafa elt og bakkað upp ýmsa ævintýramenn.

Í krafti stöðu sinnar fengu Stoðir samþykkta þá stefnu innan Arion að draga heldur úr umfangi bankans til að losa um sem mest af eigin fé, draga úr útlánum svo eiginfjárhlutfallið færi langt yfir kröfur stjórnvalda, svo greiða mætti það út til eigenda eða nota til kaupa á eigin bréfum bankans. Árið 2021 var stefnt að því að færa með þessum hætti um 70 milljarða króna til eigenda hlutabréfa í Arion. Það er rétt tæplega nýr Landspítali.

Stoðir hafa rekið sömu stefnu í Símanum, sem seldi frá sér innviði með sölu á Mílu til fransks fjárfestingarsjóðs og greiddi eigendum hlutafjár út megnið af söluverðinu. Aðgerðin var því ekki um að afla Símanum fé til vaxtar. Fyrirtækið var veikara á eftir, ólíklegra til að standa af sér niðursveiflur í hagkerfinu. Félagið bundið samningum um að endurgreiða franska sjóðnum söluverðið á nokkrum árum í formi gjalds fyrir aðgang að grunnkerfunum. Það hefur því ekki lengur seigluna sem eign á innviðum gefur, að geta staðið af sér ágjöf með því að draga úr fjárfestingum á erfiðum tímum. Með sölunni þarf Síminn að borga sömu leigu fyrir innviðina öll ár, jafnt góð sem slæm.

Franski sjóðurinn græðir þjónustugjöldin í framtíðinni þegar hann hefur endurheimt kaupverðið. Eigendur hlutafjár Símans hlaupa burt með kaupverðið. Síminn sjálfur er í raun fórnarlamb samnings millum þessara tveggja.

Gamma. Málverk eftir Þránd Þórarinsson.

Það er með þessu hugarfari sem Stoðir vilja reka fyrirtæki. Ekki aðeins með kröfu um arðsemi, þ.e. að hámarka getu fyrirtækisins til að greiða eigendum sínum arð, heldur með því að aðlaga reksturinn og alla stefnu fyrirtækisins að því að færa sem mest af fé og eignum fyrirtækisins til eigendanna. Hagsmunir eigandans til skamms tíma og þörf hans fyrir fé eru einu markmið fyrirtækja í höndum svona manna. Markmiðið er ekki að byggja upp sterkt fyrirtæki eða veita góða þjónustu, ekki að byggja upp góðan vinnustað og ekki að þjóna samfélaginu þar sem fyrirtækin eru staðsett. Aðeins að færa sem mest fé til eigendanna.

Að baki er hugmyndastefna sem segir að þetta sé besta og eina leiðin til að reka fyrirtæki, að þau séu í heilbrigðasta rekstrinum þegar þau geta fært eigendum sínum mestan arð. Að öll önnur sjónarmið í fyrirtækjarekstri spilli leiknum. Og það sem meira er, þessi hugmyndastefna segir að best sé að færa sem mest af rekstri samfélagsins og flestar ákvarðnir innan þess inn í svona fyrirtæki. Að ef við látum allan rekstur snúast um að færa fjármagnseigendum sem mestan auð þá munum við ná að byggja upp allra besta heim allra besta heima.

Virkni þessarar stefnu kom ágætlega fram í cóvid-faraldrinum. Þá reið á að fjármálakerfið stígi á móti samdrættinum með því að lána til framkvæmda, legði sitt til að byggja upp eitthvað nýtt í ládeyðunni. Bankarnir gerðu það almennt ekki, lánuðu fyrst og fremst eignabröskurum til að kaupa gamlar eignir og blésu upp eignabólu en bjuggu ekkert til. Nema meiri auð fyrir hin auðugu. En þetta átti sérstaklega við um Arionbanka sem rak í cóvid þá stefnu að draga úr umfangi sínu og ýtti þar með undir samdrátt. Tilgangurinn? Að færa eigendum sínum meira fé.

Þessi hugmyndastefna hefur verið mikið gagnrýnd og fer sú gagnrýni vaxandi. Ekki bara frá sósíalistum eða and-kapítalistum heldur nær sú gagnrýni langt til hægri og inn á vettvang viðskiptanna, enda hefur þessi stefna eyðilagt fyrirtæki og samfélög víða um heim. Og er að eyðileggja vistkerfin og loftslagið. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt þessa einsýnu stefnu eru Business Roundtable, sem er samtalsvettvangur forstjóra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna.

Stoðir eiga um 6,8% í Kviku, sem er um 6,3 milljarða króna virði. Félagið á minna en 1% í Íslandsbanka. Þar eru þrír erlendir sjóðir stærstir einkafjárfesta með samanlagt 7,4% hlutafjár. Mögulega ætla Stoðir ekki að auka við hlut sinn, sætta sig við að fara undir 2% í sameinuðum banka. En líklegra er að félagið ætli að losa sig úr Arion og kaupa í Íslandsbanka/Kviku og verða leiðandi í sameinuðum banka og innleiða þar hrægammastefnu sína.

Jón Sigurðsson fyrrum forstjóri FL-Group sameinar í Stoðum ættarauð eiginkonu sinnar og gamla viðskiptafélaga frá því á árunum fyrir Hrun.

Gamall ættarauður plús Hrunverjar

Stærsti eigandi Stoða er félag sem kallast S121 sem á tæpan 60% hlut. Stærsta hlutinn í S121 á Helgafell, 48%. Helgafell er félag eiginkonu, barna og tengdabarna Vilhjálms heitins Fenger, sem var sonur Hilmars Fenger stórkaupmanns. Hilmar og Garðar bróðir hans eignuðust heildsöluna Nathan & Olsen eftir að John faðir þeirra hafði keypt Nathan út fyrst og síðan Olsen.

Sonur Vilhjálms er Ari Fenger sem á og rekur Nathan & Olsen og er nú formaður Viðskiptaráðs, sem einmitt rekur þá stefnu sem lýst var hér að ofan, um að allt fari vel í samfélagi þar sem eigendur hlutafjár fá sem mestan arð. Tengdasonur Vilhjálms, giftur Björg Fenger dóttur hans, er Jón Sigurðsson, forstjóri FL-Group í Hruninu. Jón er framkvæmdastjóri Helgafells og S121 og lengst af Stoða, leiðandi maður í öllum viðskiptum með Stoðir, Kviku, Símann og fleira.

Auk Fenger-fólksins eru í S121 meðal annars félög í eigu Magnúsar Ármann sem mjög kom við sögu í Hrunmálum, félag í eigu Malcolm Walker eiganda Iceland stórmarkaðskeðjunnar í Bretlandi og fyrrum viðskiptafélaga Baugs og félag sem er í eigu Einars Arnar Ólafssonar, sem kom að umdeildri sölu Skeljungs frá Glitni, Ingimundar Sveinssonar arkitekts og föðurbróður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, og fleira fólks.

Stjórn Íslandsbanka: Finnur Árnason formaður, Guðrún Þorgeirsdóttir varaformaður, Anna Þórðardóttir, Ari Daníelsson, Frosti Ólafsson, Herdís Gunnarsdóttir og Tanya Zharov.

Þessi ákveða framhaldið

Tilboð Kviku um viðræður um sameiningu er sent á stjórn Íslandsbanka. Þar situr fólk sem ýmist á smáan hlut í bankanum eða ekki neitt. Sumt er nánast stjórnarfólk að atvinnu, situr í hinum og þessum stjórnum fyrirtækja. Það er þetta fólk sem getur tekið ákvörðun um hvort farið verður í sameiningarviðræður við Kviku.

Formaður stjórnar er Finnur Árnason, fyrrum forstjóri Haga en nú sjálfstætt starfandi ráðgjafi og stjórnarmaður. Varaformaður er Guðrún Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá PayAnalytics ehf.

Auk þeirra sitja í stjórninni þau Anna Þórðardóttir fyrrum endurskoðandi og nú sjálfstætt starfandi stjórnarmaður, Ari Daníelsson sjálfstætt starfandi stjórnarmaður og fjárfestir, Frosti Ólafsson forstjóri Olís, dótturfélags Haga, Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech hf.

Ef við teljum maka með þá á Finnur hlutabréf í Íslandsbanka fyrir 23,8 m.kr., Ari fyrir 59,3 m.kr., Frosti fyrir 4,4 m.kr. og Tanya fyrir 526 þús. kr. Samanlagt er þetta 0,04% af hlutafé bankans.

Öll nema Anna og Tanya hafa farið í MBA-nám sem er einskonar pungapróf í hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Þar er því haldið að nemendum að fyrirtæki eigi aðeins að reka út frá þörf eigenda fyrir arð. Þau munu líklega hafa það að leiðarljósi við ákvörðun sína, með hvaða hætti er hægt að láta rekstur og eignir Íslandsbanka skila hluthöfum sem mestu fé.

Ef af sameiningu verður og skiptahlutföll verða í líkingu við skráð verð á hlutabréfum mun 42,5% hlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka falla niður í 30,5%. Það er of lítill hlutur til að geta stöðvað meiriháttar breytingar á félaginu, t.d. lagabreytingar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí