Tesla starfsmenn reknir fyrir að vilja bindast stéttarfélagi

Fyrr í vikunni voru starfsmenn í New York verksmiðju Tesla reknir eftir að hafa bundist samtökum stéttarfélags. Tilraun til þess að koma á fót verkalýðsfélagi hófst fyrr í vikunni. Starfsfólkið vann við að merkja gögn sem eiga að gera bifreiðum Tesla kleift að keyra án aðkomu ökumanns.

Kröfur starfsfólksins eru að bæta kjör, starfsöryggi og að dregið sé úr sjálfvirkri vöktun á störfum þeirra. Fólk sem vinnur við gagnavinnu af þessum toga er í einskonar verksmiðjuvinnu þar sem afköstum er viðhaldið með slítandi kvótum og ströngu eftirliti.

Þetta kemur fram í kvörtun sem hefur verið lögð fyrir embætti vinnumarkaðsmála í Bandaríkjunum. Forsprakkar átaksins um bætta stöðu starfsfólks Tesla fullyrða að um hefndaraðgerðir sé að ræða.

„Það er augljóst hvaða skilaboð er verið að senda. Þeir eru að reyna að hræða okkur. Og ég held að það sé að springa í andlitið á þeim. Þetta er að opna augu fólks fyrir því hvað er mikilvægt að vera í stéttarfélagi.“ — Sara Costantino, fyrrum starfsmaður Tesla, New York

Elon Musk, forstjóri fyrirtækisins og einn auðugasti maður heims, hefur áður verið dæmdar sektir fyrir að reka þá sem vilja njóta stuðnings stéttarfélaga, sem og að tilkynna það á Twitter að starfsmenn innan stéttarfélaga tapi samstundis kaupréttarsamningum sem eru oft á tíðum stór hluti af launakjörum starfsmanna tæknifyrirtækja.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí