Þorvaldur vill þjóðnýta stórútgerðina

„Ég legg til einfalda leið með innlenda og erlenda reynslu að leiðarljósi: Við þjóðnýtum stóru útgerðirnar úr því að það virðist nú vera eina leiðin til að virkja lögbundið eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni án frekari tafar,“ segir Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor, sem lengi hefur barist gegn eignarhaldi fárra á fiskveiðiauðlindum landsmanna.

Þorvaldur kom að Rauða borðinu og færði rök fyrir máli sínu.

„Rökin fyrir þjóðnýtingu stóru útgerðanna eru skýr,“ segir Þorvaldur. „Alþingi heldur áfram að afhenda útvegsmönnum á silfurfati bróðurpartinn af sjávarrentunni til að braska með þótt heilbrigðiskerfið sé að þrotum komið og einnig ýmis önnur almannnaþjónusta, jafnvel landhelgisgæzlan.

Gjaldþrotarökin fyrir þjóðnýtingu eiga því við af fullum þunga. Þjóðnýtingu stóru útgerðanna er ætlað að skila sjávarrentunni í réttar hendur. 

Við bætast velsæmisrökin, þau rök að vanheilagt bandalag Alþingis og útvegsmanna hefur fyrir löngu gengið fram af fólkinu í landinu auk þess sem fyrir liggja skýrir vitnisburðir um lögbrot útvegsmanna í Namibíu. Og svo eigum við eftir að opna skattaskjólin.“

Og aðferðin sem Þorvaldur leggur til er þessi:

„Þeim fimm flokkum sem þáðu enga styrki frá útvegsfyrirtækjum fyrir síðustu alþingiskosningar er í lófa lagið að lýsa því yfir fyrir næstu kosningar að þeir ætli sér að mynda samsteypustjórn eftir kosningar til að þjóðnýta stóru útgerðirnar og leggja önnur ágreiningsmál til hliðar á meðan. Þetta eru Flokkur fólksins, Píratar, Samfylkingin og Sósíalistaflokkurinn sem virðist líklegur til að bætast í hóp þingflokka á næsta þingi auk Viðreisnar sem þáði aðeins smáræði frá útvegsfyrirtækjum, langt innan við 1 mkr., og á að réttu lagi heima í slíku bandalagi. Yfirlýsing sem þessi gæti hæglega tryggt þessum framboðum meiri hluta þingsæta þótt kjördæmaskipanin sé enn sem fyrr ranglát og ólögmæt í þeim skilningi að 67% kjósenda höfnuðu henni í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. 

Stjórn þessara flokka hefði greiðan aðgang að erlendri sérþekkingu á hvernig vænlegast er að standa að þjóðnýtingu stóru útgerðanna ásamt upptöku og endurdreifingu þeirra eigna sem nauðsynlegt mun þykja að verði skilað aftur til rétts eiganda, fólksins í landinu.“

Í samtali við Rauða borðið benti Þorvaldur á mýmörg dæmi erlendis frá þar sem verið væri að þjóðnýta það sem áður hefur verið einkavætt. Íslendingar þyrftu ekki að fara aftar en að Hruni þar sem einkavæddir bankar hefðu verið þjóðnýttir þegar einkavæðingin hafði misfarist herfilega.

Heyra má og sjá viðtalið við Þorvald í spilaranum hér að ofan, þar sem hann ber t.d. saman Rússland og Ísland, lönd sem hann þekkir vel til og telur að séu um margt lík.

Lesa má grein Þorvaldar um þetta mál hér: Þjóðnýtum stóru útgerðirnar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí