Samkvæmt samræmdri vísitölu Evrópsku hagstofunnar fer verðbólgan lækkandi í Evrópska efnahagssvæðinu. Hún var 11,5% í október en mældist 10,0% í janúar. Í október var verðbólgan á Íslandi 6,4% en var komin í 8,1% í janúar. Ljóst er að bilið mun enn minnka i febrúar, en verðbólgan á Íslandi er miklu skriði á meðan hún dregst saman í Evrópu.
Samræmd neysluvísitala Evrópu tekur ekki mið af fasteignaverði eins og neysluvísitala Hagstofunnar. Hún mælir því raunverulegar breytingar á framfærslukostnaði, hefur ekki inn í sér hækkanir eða lækkanir á eignaverði.
Ef við horfum aftur fyrir Hrun hefur verðbólgan á Evrópska efnahagssvæðinu sveiflast svona (rautt strik) í samanburði við verðbólguna á Íslandi (blátt strik):

Þarna sjáum við að það er tiltölulega lítið að frétta í Evrópu fyrr en verðbólgan byrjar að hækka í cóvid og svo enn frekar eftir innrás rússneska hersins inn í Úkraínu. Toppnum virðist hins vegar vera náð og eftir október í haust byrjar að draga úr verðbólgu, þótt enn sé hún meiri en á Íslandi.
Bláa lína Íslands sýnir allskonar bólur og hrun. Fyrst rís verðbólgan þegar gengið féll í svokallaðri Íslandskreppu vorið 2006. Verðbólgan rís síðan eins og Everest í Hruninu, fyrst og fremst vegna hruns krónunnar. Verðbólgan jafnar sig síðan og eftir að innstreymi gjaldeyris komst á skrið í ferðamannabólunni lækkaði verðbólgan og varð minni en í Evrópu. Það varð meira að segja verðhjöðnun á tímabili þótt Íslendingar hafi ekki tekið eftir því þar sem opinber verðbólga hér hefur verðhækkanir á fasteignamarkaði inn í sér, hækkun á fasteignamarkaði vó upp verðhjöðnunina.
Við endann sjáum við að verðbólga á Íslandi jókst í cóvid og við innrásina í Úkraínu, en hægar en í Evrópu þar sem hækkun orkuverðs keyrði verðbólguna áfram. En þegar verðbólgan í Evrópu fer að lækka þá heldur hún áfram að hækka.
Og það er ekki hægt að spá öðru en að svo verði áfram. Hækkun neysluvísitölu Hagstofunnar í febrúar sýnir mikla hækkun þrátt fyrir að nú sé hún alls ekki keyrð áfram af bólu á fasteignamarkaði. Verðbólgan á Íslandi er fyrst og síðast þensluverðbólga, verðbólga keyrð áfram af spennu í hagkerfinu og tækifærum fyrirtækja til að skrúfa upp verð á vöru og þjónustu.
Hér má sjá verðbólguna í janúar í Evrópu samkvæmt samræmdri verðbólgumælingu evrópsku hagstofunnar:
