Verðbólgan tók stökk í febrúar, samkvæmt mælingu Hagstofunnar á neysluvísitölunni. Vísitalan hækkar um 1,39% á einum mánuði og hefur ekki hækkað nema einu sinni meira síðan um mitt ár 2013. Hækkun síðustu tólf mánuði er komin í 10,2%. Og verðbólguhraðinn í febrúar jafngildir 18% verðbólgu á ársgrundvelli.
Þetta er mikil hækkun á þremur mánuðum. Í desember var verðbólguhraðinn 8,2%, fór í 10,7% í janúar og er nú kominn í 18,9%.
Nú er það ekki hækkun húsnæðisverðs sem keyrir vísitöluna áfram heldur almenn hækkun á flestum vörum. Og í janúar voru útsölur á ýmsum vörum sem koma nú inn með töluverða hækkun.
Þar vegur þyngst 8,7% hækkun húsgagna, heimilistækja og slíks. Ef við færum okkur aftur fyrir útsölurnar þá hefur þessi liður hækkað um 4,2% frá nóvember, sem jafngildir um 17,9% verðbólgu á ársgrunni.
Húsnæðisliðurinn hækkar um 0,25% sem jafngildir 3% verðbólguhraða. Þar inni er reiknuð húsaleiga, sem mælir fasteignaverð. Þar er hækkunin aðeins 0,1%, sem jafngildir 1,2% verðbólgu.
Fasteignaverð nemur rétt um fimmtungur af vísitölunni. Ef við reynum að meta verðbólguna á því sem eftir er þá er hækkunin á öðru en húsnæði 1,61% milli mánaða og verðbólguhraðinn kominn yfir 20%.
Verðbólgan nú er langt yfir forsendum fjárlaga og því sem var lagt til grundvallar kjarasamninga fyrir jól. Að óbreyttu mun verðbólga éta hátt í 10 þúsund krónur af verðmæti meðallauna, bara í þessum eina mánuði.
Frá því að iðnaðar- og verslunarmenn sömdu um almenna hækkun upp á 6,75%, það er á laun yfir lægstu taxta, hefur verðbólga étið 2,9% af þessari hækkun. Það gerðist á þremur mánuðum. 3,85% af launahækkuninni er eftir, en það eru tólf mánuðir eftir af samningstímanum.