Þegar verkbannið skellur á fimmtudaginn 2. mars mun fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins reka heim launalaust um 21 þúsund félagsmenn í Eflingu. Við það munu þau fyrirtæki lamast og í raun allt samfélagið á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækin munu verða af miklum tekjum, finna strax fyrir afleiðingunum. Verkafólkið finnur minna fyrir þessu, enda fær það útborgað mánaðarlaun sín, daginn áður en verkbannið hefst.
Mars mun því verða undarlegur mánuður í boði fyrirtækjaeigenda sem eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Þar inni eru svo til öll stærstu fyrirtæki landsins. Þau munu líklega reka Eflingarfélaga heim. Önnur félög sem ekki hafa gengið í SA, eru utan þeirra eða í Félagi atvinnurekenda, Atvinnufélaginu, Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði eða öðrum slíkum samtökum sem eiga ekki í deilu við Eflingu munu ólíklega taka þátt í þeim sjálfskaða sem SA boðar. Það mun því einhver starfsemi halda áfram, en smátt og smátt munu afleiðingar verkbannsins hafa áhrif á og að lokum líklega lama alla starfsemi á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Ferðaþjónustan mun leggjast af, framleiðsla, dreifing og sala matvæla mun raskast, bensínið mun klárast, samgöngur stoppa og forstjóragangarnir í fyrirtækjunum rykfalla vegna skorts á þrifum.
Þessi aðgerð beinist fyrst og fremst gegn viðskiptavinum fyrirtækjanna og eigendunum sjálfum. Viðskiptavinirnir fá ekki þjónustu og eigendurnir munu þurfa að greiða öðru starfsfólki, sem ekki er í Eflingu. Þar sem ekkert verkbannseftirlit verður, eins og þegar verkföll eru, geta eigendur fyrirtækja líklega þröngvað öðru starfsfólki til að ganga í störf Eflingarfólks. Skrifstofufólk verður sagt að skúra, sölumönnum að fara inn á lagerinn og bókaranum að keyra út vörurnar. Þetta fólk getur auðvitað neitað, því er ekki skylt að sinna störfum utan sinnar verklýsingar.
Án verkbannseftirlit þar sem þess er gætt að enginn gangi í störf Eflingarfólks verður verkbannið mögulega líkari risastórum Kvennafrídegi sem getur varað út allan mars og jafnvel lengur. En þetta er ekki kvennafrídagur þar sem við áttum okkur á mikilvægi kvenna í atvinnulífinu, heldur langur ground hog day þar sem við verðum minnt á mikilvægi láglaunafólks í samfélaginu, sem að miklu leyti er innflytendur. Og að stóru leyti konur.
Það má segja að það sé hjákátlegt ef þetta verður niðurstaðan af verkbanni Samtaka atvinnulífsins. Það væri kannski eðlilegra að einhver samtök innflytjenda myndu standa fyrir svona aðgerð.
Félagsfólk Eflingar mun hafa fengið útborgað daginn áður en verkbannið skellur á. Verkbannið mun bitna á þeim með sama hætti og öðrum borgurum en munurinn er sá að þau eru í fríi. Annað en fólk sem verður sveitt á yfirsnúningi við að halda fyrirtækjum opnum. Vandi Eflingarfólksins er ekki í mars heldur þegar 1. apríl kemur og þau fá ekki útborgað vegna aðgerða fyrirtækjaeigenda.
Margir Eflingarfélagar munu eflaust reyna að ráða sig til vinnu hjá þeim fyrirtækjum sem eru utan SA og þeim fyrirtækjum innan SA sem vilja ekki taka þátt í sjálfskaðanum. Vinnumarkaðurinn er mjög ofþaninn og um 3/4 hlutar fyrirtækja vantar fólk til starfa. Starfsfólk ber enga tryggð til fyrirtækja sem hafa rekið það heim án launa. Auðvitað ná fyrirtæki utan SA ekki að ráða allt fólkið til sín, en þar sem starfsemi þeirra mun vaxa meðan starfsemi fyrirtækja innan SA liggur niðri má gera ráð fyrir að fyrirtæki utan SA geti ráðið til sín töluverðan hóp. Og auðvitað munu þau gera það. Þetta er tækifæri fyrir fyrirtæki til að stækka og styrkja markaðsstöðu sína, meðan samkeppnisaðilinn sefur. Fólksflóttinn mun svo auðvitað gera endurræsingu fyrirtækja sem taka þátt í verkbanninu erfiðari.
Það er ekki fyrr en fer að líða að næstu útborgun 1. apríl að Eflingarfélagar geta farið að meta hvernig félagið mætir þeim félögum sem hafa orðið fyrir verkbanni SA. Það er ljóst að verkfallssjóðurinn getur aldrei bætt 21 þúsund manns tap á mánaðarlaunum svo sú aðstoð verður líklega frekar í formi súpueldhúss, aðstoðar við að semja við leigusala um greiðslufrest, aðstoð við að finna aðra vinnu hér heima eða erlendis og eitthvað þesslegt.
Þá munu fyrirtæki innan SA hafa fórnað gríðarlegum tekjum. Verkbann mun virka á mörg þeirra svipað og sóttvarnarlokanir á tímum cóvid. Þá kom ríkisstjórnin til hjálpar fyrirtækjaeigendum, styrkti þá margfalt á við aðra þjóðfélagshópa. Það er hins vegar vandséð hvernig ríkisstjórnin getur réttlætt að bæta fyrirtækjum sjálfskaðann. En miðað við söguna verður það gert með einum og öðrum hætti. Og ríkissjóður mun skaðast sjálfkrafa, fall í tekjum fyrirtækja mun lækka hagnað og þar með tekjuskatt fyrirtækja.
Ef af verkbanninu verður má skoða að þjóðnýta þau fyrirtæki sem þykja efnahagslega mikilvæg. Það er ekki verjandi að skilja slík fyrirtæki eftir í höndum fólks sem loka þeim í frekjukasti, vegna þess að þeim líkar ekki hvernig verkafólkið hagar kjarabaráttu sinni.