Útlit efnahagsmála er nú í byrjun mars allt annað en var í byrjun desember þegar skrifað var undir kjarasamninga Starfsgreinasambandsins. Verðbólguhraðinn er miklu meiri, gengið hefur gefið eftir og vextir hafa hækkað og munu hækka enn meira.
Í haust tilkynnti Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri að svo virtist sem vaxtahækkanir hefðu skilað árangri og búið væri að ná tökum á verðbólgunni. Ástæða bjartsýninnar má best lýsa með grafi sem sýnir verðbólguhraðann í hverjum mánuði miðað við undangengna þrjá mánuði.

Örin bendir á 1. nóvember. Launahækkanir miða við þann dag og þá var verið að leggja grunn að samningunum. Desember hækkunin sást ekki, hvað þá það sem tók við í janúar og febrúar.
Í október var Ásgeir Jónsson bjartsýnn, þá virtist sem kúfurinn væri að baki. En í nóvember tóku að berast gögn um svo væri ekki og þess vegna hækkaði Seðlabankinn vexti um 25 punktar þann 23. nóvember, upp i 6,0%. Það leysti upp kjaraviðræðurnar, leiddi meðal annars til þess að VR sleit sig frá samfloti með Starfsgreinasambandinu.
Eftir sem áður var gengið út frá því að verðbólgan á árinu 2023 yrði 5,6% eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
Þið sjáið á grafinu að svo til um leið og búið var að undirrita samningana féll þessi von. Verðbólgan náði sér upp, lítið í desember, nokkuð í janúar og síðan mikið í febrúar. Og nú bendir allt til að verðbólgan í mars verði líka mikil.
Verðbólgugrunnurinn undir samningunum er fallinn.
Og þar með vonin um að vextir hækki ekki. Sú von féll í raun á meðan verið var að semja. Eins og áður sagði hækkaði Seðlabankinn vexti um 25 punkta 23. nóvember, upp í 6,0%. 8. febrúar voru vextir síðan hækkaðir um 50 punkta, upp í 6,5%. Og næst verða þeir hækkaðir 22. mars og þá líklega um 100 punkta, upp í 7,5%. Og jafnvel meira.
Draumurinn um að samningarnir myndu forða okkur frá vaxtahækkunum er fallinn.
Og það hefur meira breyst. Hér er graf sem sýnir gengi krónunnar gagnvart evru:

Evran var 143,28 kr. þann 1. nóvember en er núna 151,50 kr. eftir að hafa aðeins styrkt sig frá lokum janúar. Þessi munur leiðir til þess að útflytjendur fá 5,7% fleiri krónur fyrir afurðir sínar. En neytendur þurfa að borga þess meira fyrir innfluttar vörur. Þumalputtareglan segir að 5,7% lækkun krónunnar leiði til um 2,3% hækkun verðlags. Og þar með kjaraskerðingar sem því nemur.
Allt veikir þetta stöðu launafólks: Lækkun krónunnar, hækkun vaxta og aukin verðbólga.
Og innan um þessar fréttir hafa komið aðrar af góðri stöðu fyrirtækjanna. Í gær birti Hagstofan frétt um 6,7% hagvöxt á síðasta ári. Þar kom fram að hagvöxtur á mann jókst um 3,7%.
Þegar meta á kjarasamninga úr mikilli hæð má segja að tvö atriði tryggi launafólki óbreytta stöðu. Annars vegar að laun hækki álíka mikið og verðbólga og hins vegar í takt við landsframleiðslu á mann. Þá fær launafólk sinn hlut af aukinni framleiðni. Þegar þetta tvennt gerist þá heldur launafólk sínum hlut. Ef laun hækka meira þá stækkar launafólk sinn hlut á kostnað fyrirtækjaeigenda. Ef launafólk fær minna þá minnkar sneið þess og sneið fyrirtækjaeigenda stækkar.
Svo launafólk haldi sínum hlut þegar landsframleiðslu á mann eykst um 3,7% í 10,2% verðbólgu þurfa laun að hækka um 14,3% svo launafólkið haldi sínum hlut. Eins og þið sjáið þá er þetta töluvert yfir hækkunum samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambandsins og iðnaðar- og verslunarmanna, samningum sem munu líklega verða grunnurinn að öllum öðrum samningum. Og hafið í huga að þeir samningar ná ekki yfir eitt ár, heldur fimmtán mánuði. Ef við höldum áfram með dæmið dugar ekki 14,3% launahækkun yfir samningstímann heldur þyrfti hækkunin að vera 18,2%.
Það er af þessum ástæðum sem Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR , Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM og fleiri hafa bent á að forsendur séu fallnar undan kjarasamningunum sem gerðir voru fyrir jól. Eftir sem áður eru þeir viðmiðið, sem aðrir samningar taka mið af.
Myndin er frá undirritun samninganna, talið frá vinstri: Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Guðbjörg Kristmundsdóttir, varaformaður SGS og formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur.