Allt breyst frá kjarasamningum Starfsgreinasambandsins

Útlit efnahagsmála er nú í byrjun mars allt annað en var í byrjun desember þegar skrifað var undir kjarasamninga Starfsgreinasambandsins. Verðbólguhraðinn er miklu meiri, gengið hefur gefið eftir og vextir hafa hækkað og munu hækka enn meira.

Í haust tilkynnti Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri að svo virtist sem vaxtahækkanir hefðu skilað árangri og búið væri að ná tökum á verðbólgunni. Ástæða bjartsýninnar má best lýsa með grafi sem sýnir verðbólguhraðann í hverjum mánuði miðað við undangengna þrjá mánuði.

Örin bendir á 1. nóvember. Launahækkanir miða við þann dag og þá var verið að leggja grunn að samningunum. Desember hækkunin sást ekki, hvað þá það sem tók við í janúar og febrúar.

Í október var Ásgeir Jónsson bjartsýnn, þá virtist sem kúfurinn væri að baki. En í nóvember tóku að berast gögn um svo væri ekki og þess vegna hækkaði Seðlabankinn vexti um 25 punktar þann 23. nóvember, upp i 6,0%. Það leysti upp kjaraviðræðurnar, leiddi meðal annars til þess að VR sleit sig frá samfloti með Starfsgreinasambandinu.

Eftir sem áður var gengið út frá því að verðbólgan á árinu 2023 yrði 5,6% eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Þið sjáið á grafinu að svo til um leið og búið var að undirrita samningana féll þessi von. Verðbólgan náði sér upp, lítið í desember, nokkuð í janúar og síðan mikið í febrúar. Og nú bendir allt til að verðbólgan í mars verði líka mikil.

Verðbólgugrunnurinn undir samningunum er fallinn.

Og þar með vonin um að vextir hækki ekki. Sú von féll í raun á meðan verið var að semja. Eins og áður sagði hækkaði Seðlabankinn vexti um 25 punkta 23. nóvember, upp í 6,0%. 8. febrúar voru vextir síðan hækkaðir um 50 punkta, upp í 6,5%. Og næst verða þeir hækkaðir 22. mars og þá líklega um 100 punkta, upp í 7,5%. Og jafnvel meira.

Draumurinn um að samningarnir myndu forða okkur frá vaxtahækkunum er fallinn.

Og það hefur meira breyst. Hér er graf sem sýnir gengi krónunnar gagnvart evru:

Evran var 143,28 kr. þann 1. nóvember en er núna 151,50 kr. eftir að hafa aðeins styrkt sig frá lokum janúar. Þessi munur leiðir til þess að útflytjendur fá 5,7% fleiri krónur fyrir afurðir sínar. En neytendur þurfa að borga þess meira fyrir innfluttar vörur. Þumalputtareglan segir að 5,7% lækkun krónunnar leiði til um 2,3% hækkun verðlags. Og þar með kjaraskerðingar sem því nemur.

Allt veikir þetta stöðu launafólks: Lækkun krónunnar, hækkun vaxta og aukin verðbólga.

Og innan um þessar fréttir hafa komið aðrar af góðri stöðu fyrirtækjanna. Í gær birti Hagstofan frétt um 6,7% hagvöxt á síðasta ári. Þar kom fram að hagvöxtur á mann jókst um 3,7%.

Þegar meta á kjarasamninga úr mikilli hæð má segja að tvö atriði tryggi launafólki óbreytta stöðu. Annars vegar að laun hækki álíka mikið og verðbólga og hins vegar í takt við landsframleiðslu á mann. Þá fær launafólk sinn hlut af aukinni framleiðni. Þegar þetta tvennt gerist þá heldur launafólk sínum hlut. Ef laun hækka meira þá stækkar launafólk sinn hlut á kostnað fyrirtækjaeigenda. Ef launafólk fær minna þá minnkar sneið þess og sneið fyrirtækjaeigenda stækkar.

Svo launafólk haldi sínum hlut þegar landsframleiðslu á mann eykst um 3,7% í 10,2% verðbólgu þurfa laun að hækka um 14,3% svo launafólkið haldi sínum hlut. Eins og þið sjáið þá er þetta töluvert yfir hækkunum samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambandsins og iðnaðar- og verslunarmanna, samningum sem munu líklega verða grunnurinn að öllum öðrum samningum. Og hafið í huga að þeir samningar ná ekki yfir eitt ár, heldur fimmtán mánuði. Ef við höldum áfram með dæmið dugar ekki 14,3% launahækkun yfir samningstímann heldur þyrfti hækkunin að vera 18,2%.

Það er af þessum ástæðum sem Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR , Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM og fleiri hafa bent á að forsendur séu fallnar undan kjarasamningunum sem gerðir voru fyrir jól. Eftir sem áður eru þeir viðmiðið, sem aðrir samningar taka mið af.

Myndin er frá undirritun samninganna, talið frá vinstri: Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Guðbjörg Kristmundsdóttir, varaformaður SGS og formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí