Kolbrún Erna Pétursdóttir leikkona greindist með brjóstakrabbamein vorið 2018. Hún hafði fundið fyrir einkennum í langan tíma, var þreytt og slöpp en segir „þegar búið er að greina konu með vefjagigt þá er allt sett á vefjagigtina. Nú eða að vera bent á að maður sé kona að eldast, svo ég var ekki mikið að leita mér lækninga”.
Kolbrún var í masternámi í Listaháskólanum á þessum tíma og var nýverið búin að selja íbúðina sína en komst svo ekki í gegnum greiðslumat til að fjárfesta í annarri. „Svo það fer af staða svolítið erfiður kafli þar sem ég er á flækingi á milli íbúða. Ég hélt ég væri bara útbrunninn og fer í VIRK. Þar finnst mér ég ná einhverjum bata en alls ekki nóg. Svo þegar ég greinist með krabbameinið þá verður það mjög skiljanlegt því líkaminn var bara á fullu að berjast.
Kolbrún segir það vissulega hafa verið áfall að fá greininguna en krabbameinið var við það að verða fjórða stigs krabbi. „Maður áttar sig kannski ekki á því fyrr en seinna. Maður setur bara varnar-mekanismann í gang og reynir að lifa af og fara í gegnum þetta”.
Það versta fannst henni að búa hálfpartinn inn á öðrum í þessari stöðu. Hún leigði herbergi með dóttur vinkonu sinnar á þessum tíma og finnst eftir á eins og unga konan hafi þurft að bera dálitla ábyrgð á sér. Kolbrún var með þykkt og mikið hár á þessum tíma og fannst tilhugsunin um að missa hárið í raun erfiðari en að missa brjóstið. Svo koma þó á daginn að það var frekar á hinn veginn.
Hún ber krabbameinsdeild Landspítalans að mestu góða söguna „Um leið og maður greinist þá tekur við ansi sterkt batterí” segir Kolbrún „ maður er reglulega í viðtölum við lækna og hjúkrunarfræðinga en svo eftir dáldinn tíma, í raun frekar stuttan tíma er manni bara ýtt út. Óháð því hversu mikið eða langt gengið krabbameinið hefur verið”. Þá finnst henni eftirfylgnin ekki nægilega góð og upplýsingagjöf um réttindi og hvað sé í boði ábótavant. Kolbrún fékk upplýsingar frá vinkonu um hvaða réttindi hún ætti í kerfinu svo sem eins og viðtöl við sálfræðing og félagsráðgjafa. Þessar upplýsingar voru þó ekki veittar á krabbameinsdeildinni að fyrra bragði.
Eftir krabbameinsmeðferðina þá hafi heimurinn hins verga dáldið hrunið. Covid hafi svo gert allt verra hvað varðaði einangrunina. Þú ert svo mikið að reyna að halda haus í gegnum veikindin en áttar þig ekki á því fyrr en eftir á hversu mikið áfallið er. En hún var líka að glíma við húsnæðisleysið sem auðveldaði ekki ástandið.
Kolbrún segir áfallið þó aðeins vera eitt af mörgum í sínu lífi sem sé ekki einsdæmi því hún er einnig þolandi misnotkunar og síendurtekinna áfalla eins og allt of margar konur þekkja. Þegar taugakerfi kvenna er stöðugt þanið þá lætur eitthvað undan.
Sjálf var hún búin að vinna mikið í sjálfri sér en þegar krabbameinið bættist ofan á áfallasöguna en þá hrundi eitthvað. Hún segir áfallastreytuna virkar einhvern veginn þannig að þegar annað áfall tekur við þá hrekkur maður til baka. Hún var bæði mikið verkjuð og fór að sofa illa og var gefið svefnlyf „Ég var bara orðin þunglynd og vildi bara sofa frá mér lífið, fannst þetta orðið mjög þungt”. Hún fór í meðferð í kjölfarið og líf hennar breyttist mikið til batnaðar en auk þess fékk hún úthlutaðri íbúð svo hún býr við húsnæðisöryggi í dag.
Kolbrún þarf að taka andhormón í áratug eftir meðferðina og glíma við verki sem fylgja þeim svo krabbameinsmeðferðin sem slík er enn til staðar. Verkjasjúkdómar og ósýnilegir sjúkdómar eins og gigt valdi allt of oft fordómum á meðan vel skilgreindur sjúkdómur eins og krabbamein er vel samþykkt í samfélaginu.
Hún vann í kvennaathvarfinu um sex ára skeið sjálf og sá ýmislegt þar. Hún telur að ef tekið verði af alvöru á kynbundnu ofbeldi muni heilsa kvenna fara batnandi.
María Pétursdóttir ræddi við Kolbrúnu í innlaginu Sjúkrasögur í Rauða borðinu fimmtudaginn 9. mars.