Arnór Sigurjónsson, fyrrum skrifstofustjór varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins hefur gefið út bókina „Íslenskur her, breyttur heimur – nýr veruleiki“ og fór fram kynning á henni í bókabúð í dag.
Hann vill alvöru umræður um stofnun hers á Íslandi sem að hans sögn ætti að hafa það markmið að tryggja öryggi landsins og byggja upp varnir til framtíðar.
Hann telur brýnt að hér verði vel þjálfuð sveit manna með þekkingu og búnað til að grípa inn í ef ráðist verði á landið fyrirvaralaust. Þá yrði hlutverk innlends herliðs að tryggja öryggi hernaðarlega mikilvægra svæða meðan beðið yrði eftir liðsauka erlendis frá.
Arnór telur þá stefnu stjórnvalda að útvista vörnum landsins til annarra þjóða beinlínis vera hættulega og segir stjórnmálamenn áhugalausa um varnarmál auk þess sem þeir tali um þau af vanþekkingu.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en nýútkomin bók hans fjallar um nauðsyn þess að stofna innlendan her.
Meðfylgjandi mynd er af Arnóri árið 2019 í heimsókn hjá varnarmálaráðuneyti Eistlands.