„Við gætum losað um 50 milljarða eða meira til innviðauppbyggingar annars staðar á landinu. Þar gætum við verið að horfa til vegasamgangna og hafnarmannvirkja en víða er mikillar fjárfestingar þörf,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali við Mogga dagsins. Bjarni vill selja Isavia og þar þar með Keflavíkurflugvöll og aðra flugvelli.
Einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar er á fullu, eins og nýfrjálshyggjan hafi ekki fallið sem hugmyndakerfi. Meirihlutinn í Íslandsbanka var seldur þvert á vilja þjóðarinnar og til stendur að bankinn sameinist Kvikubanka svo hlutur ríkisins í sameinuðum banka fari niður fyrir þriðjung. Í vikunni voru opnuð tilboð í 700 liðaskiptaaðgerðir sem er ein stærsta einkavæðing heilbrigðiskerfisins um langa hríð. Fram undan er víðtæk einkavæðing vegakerfisins, en gert er ráð fyrir að allar stærri framkvæmdir næstu ára verði í einkaeigu. Og nú segir Bjarni að ríkisstjórnin ætli að selja flugvellina.
Í öllum könnunum sem gerðar hafa verið hefur komið fram að almenningur vill ekki þessa einkavæðingu. Þrátt fyrir að hafa heyrt það áratugum saman að almannaeigur séu betur komnar í höndum einkaaðila, þá hefur almenningur ekki fallist á það. Ekki heldur að það sé snjallt að losa fé sem bundið er í bönkum og öðrum innviðum, eins og það er orðað, og nota í eitthvað annað.
Ríkissjóður er nú rekinn með miklum halla þar sem skattar á fyrirtækja- og fjármagnseigendur hafa verið lækkaðir mikið á undanförnum áratugum. Söluverð fyrir eigur almennings hefur því í reynd farið í að niðurgreiða skatta hinna ríku. Í stað þess að innheimta af þeim skatta eins og áður var gert til að fjármagna innviði og grunnkerfi samfélagsins, eru skattar þeirra lækkaðir en eignir almennings seldar til að fjármagna tekjumissinn. Og þau sem kaupa eru þau sem fengu skattaafsláttinn. Ríkið fjármagnar því kaupin fyrir kaupendur.
Þrátt fyrir að almenningur hafi aldrei fallist á þessi rök nýfrjálshyggjunnar hefur einkavæðingin verið keyrð áfram af stjórnvöldum. Þótt hin ríku hafi ekki sannfært almenning hafa þau sannfært stjórnmálaelítuna, sem hefur fallist á að hennar hlutverk sé að stýra landinu í félagi og sátt við hin ríku.
„Við höfum ekki sett það verkefni á dagskrá í þessari ríkisstjórn að losa um hluti ríkisins í Isavia,“ segir Bjarni í Mogga dagsins. „Hins vegar get ég sagt fyrir mitt leyti að mér finnst að við ættum að skoða þann möguleika og þá væri ég að hugsa til þess að losa um minnihluta í félaginu; fá að félaginu fjárfesta sem kæmu með reynslu og þekkingu af rekstri alþjóðaflugvalla. Um leið gæti ríkið auðveldlega losað um að minnsta kosti 50 milljarða, ef ekki meira.“
Plan Bjarna er að fá einkaaðila inn sem stjórni uppbyggingunni út frá eigin hagsmunum en ríkið verði þögull hluthafi, eins og lífeyrissjóðirnir eru í flestum fyrirtækjum. Aðkoma ríkisins yrði þá ekki lengur sem eigandi sem vill tryggja uppbyggingu innviði samfélaginu til heilla heldur eins og hver annar fjárfestir sem gerir aðeins þær kröfur til fyrirtækisins að það skili eigendum sínum sem mestum arði. Ástæða þess að Bjarni tleur þetta góða breytingu, að fórna félagslegum sjónarmiðum fyrir kröfur um arð, er að hann eins og flokkur hans trúir að þessar arðsemiskröfur auðvaldsins séu besta aflið til samfélagsmótunar, að arðsemikröfur hinna ríku séu beta leiðarljósið til framtíðar.
Þetta er algjör minnihlutaskoðun í samfélaginu. Kannanir benda þvert á móti til að almenningur vilji að almannavilji ráði uppbyggingu samfélagsins, ekki arðsemiskröfur hinna ríku.
Í samtalinu við Moggann kemur fram að Bjarni veit ekki hvers virði Isavia væri á markaði. Af honum má skilja að félagið sé á bilinu 100 til 200 milljarðar króna virði. Hugmynd hans er að selja fyrst um þriðjung. Og ef marka má fyrri sölur ríkiseigna í okkar heimshluta þá verður þeim rökum beitt eftir þá sölu að þar sem félagið sé nú rekið eins og hvert annað einkafyrirtæki þá sé allt eins gott að selja restina.